Síðustu orð hennar við lögreglumennina voru: „Þið verðið að fyrirgefa, en ég vil gjarnan hitta ykkur aftur, ég hef meira að segja ykkur.“
Hún náði því hins vegar ekki því hún lést skömmu síðar.
En það kom ekki að sök því árásarmennirnir skildu eftir sig slóð vísbendinga. Eftir að hafa farið ítarlega í gegnum upplýsingar um 3,5 milljónir símtala á svæðinu, þar sem Hélène Pastor var skotin, og farið í gegnum upptökur úr eftirlitsmyndavélum handtók lögreglan 10 manns.
Eignir Hélène Pastor voru metnar á sem svarar til 1.600 til 2.700 milljarða íslenskra króna. Helstu eignir hennar voru nokkrar af dýrustu og fallegestu fasteignunum í Mónakó en margar þeirra voru reistar af afa hennar, Jean-Baptiste Pastor, sem flutti til Mónakó frá Ítalíu um 1880. Hún átti í góðu sambandi við furstafjölskylduna og var talin koma næst þeim í virðingarstiganum í Mónakó.
Pastor lá ekki sjálf á fjármunum sínum því hún var örlát við fjölskyldu sína. Dóttir hennar Sylvia Janowski og eiginmaður hennar fengu til dæmis 500.000 evrur í vasapeninga á mánuði en það svarar til um 68 milljóna íslenskra króna. En þetta fannst eiginmanni Sylvia, Wojciech Janowski, ekki nóg. Hann er 69 ára kaupsýslumaður og ræðismaður Póllands í Mónakó. Rekstur fyrirtækja hans í tölvuiðnaðinum og olíuiðnaðinum gekk ekki sem skyldi og gjaldþrot hefði vofað yfir ef vasapeningarnir frá tengdamömmu hefðu ekki komið til.
Fyrir dómi kom fram að Janowski hafi byrjað að skipuleggja morðið á tengdamóður sinni 2012 þegar eiginkona hans fékk krabbamein. Ef hún hefði látist hefði hann hætt að fá greiðslur frá tengdamóður sinni og hefði farið á hausinn.
Við fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglunni brotnaði Janowski saman og játaði allt. Hann sagðist hafa tekið saman höndum með einkaþjálfara sínum, Pascal Dauriac, sem fékk mág sinn, Abdelkader Belkhatir, til að finna leigumorðingja og greiddi honum fyrir að finna slíkan.
Belkhatir fann leigumorðingja um miðja nótt í innflytjendahverfi í Marseille. Tveir smákrimmar tóku tilboði hans um að fá greitt fyrir að myrða Pastor en þeir áttu að fá sem svarar til 18 milljóna íslenskra króna fyrir verkið.
Tvímenningarnir, Samine Ahmed og Al Hamadi, voru ákærðir fyrir að hafa skotið Pastor og þjón hennar. Báðir neituðu sök en þeir höfðu skilið eftir sig slóð vísbendinga í formi símanotkunar, þeir sáust á upptökum eftirlitsmyndavéla, þeir höfðu gist á hótelum og notað leigubíla í Nice. Þeir stóðu svo illa að verki að lögreglumenn áttu varla orð yfir vanhæfni þeirra. Skipulagning og framkvæmd morðanna var svo léleg að glæpasagnahöfundur hefði skammast sín fyrir að nota svo lélega atburðarrás í sögu sína.
Janowski var dæmdur í lífstíðarfangelsi og sömu dóma hlutu tvímenningarnir sem skutu Pastor og þjón hennar. Dauriac var dæmdur í 30 ára fangelsi fyrir að hafa haft milligöngu um að finna leigumorðingja.