Það var kannski ekki að ástæðulausu að hann fékk viðurnefnið „The Iceman“. Þegar þungvopnaðir sérsveitarmenn handtóku hann árið 1986 var engin áhætta tekin. Fjölmennt lögreglulið kom að handtökunni og þyrlur sveimuðu yfir. Ástæðan var að Richard var kaldrifjaður leigumorðingi sem hafði minnst 200 mannslíf á samviskunni. „Ég vildi óska að síðustu orðin sem hann heyrði væru að ég hataði hann,“ sagði eiginkona hans, Barbara Kuklinski, síðar í samtali við The Telegraph.
Þau höfðu verið gift í 26 ár þegar hann var handtekinn og hafði Barbara enga hugmynd um „aukavinnu“ eiginmannsins. Það höfðu nágrannarnir heldur ekki. Þeir töldu hann vera góðan þriggja barna föður sem sótti kirkju, elskaði Disneymyndir og þénaði vel sem kaupsýslumaður.
Það voru bara meðlimir í hinni ofbeldisfullu New York-mafíu sem vissu að þessi hávaxni 140 kílóa maður var morðmaskína sem drap eftir pöntun. „Ég lifði tvöföldu lífi. Eiginlega vildi ég bara fjölskyldulífið en ég varð að sinna báðum störfum til að sjá fyrir okkur. Ég var góður í að drepa fólk. Að auki fannst mér það gaman,“ sagði Richard síðar.
Árið 1961 var Barbara nýorðin 18 ára og starfaði hjá fyrirtækinu Swiftline. Þar starfaði Richard einnig. Hann var 25 ára, kvæntur tveggja barna faðir. Hann heillaðist af Barbara og byrjaði að ganga á hana um hvort hún vildi ekki fara á stefnumót með honum. Hún var hikandi því hún vissi að hann var kvæntur.
En hann gafst ekki upp. Hann gróf heimilisfangið hennar upp og sendi henni blóm og bangsa og foreldrar hennar vildu gjarnan vita hver þessi vonbiðill var. Þegar hún var búin að vinna beið hann eftir henni fyrir utan og bauðst til að aka henni heim.
Barbara hafði aldrei átt kærasta en féll kylliflöt fyrir þessum 195 cm manni sem vóg 120 kíló. Þau fóru saman út að borða og dansa. „Hann var hinn fullkomni maður,“ sagði Barbara í heimildarmyndinni „Inside the Mind of a Mafia Hitman“.
Þau hittust á hverju kvöldi en eftir nokkra mánuði áttaði Barbara sig á að hún hafði ekki hitt vini sína lengi. Kvöld eitt safnaði hún í sig kjarki og sagði við Richard: „Ég þarf að fá smá svigrúm.“
Hann brást við með því að draga upp hníf og stinga hana í bakið. Hnífurinn var svo oddhvass að hún áttaði sig ekki strax á því hvað hann hafði gert. Þegar hún fann blóð renna niður bakið áttaði hún sig á að hann hafði stungið hana. „Hvað gerðirðu?“ spurði hún grátandi. Augu hans voru kolsvört og hann svaraði: „Þú tilheyrir mér. Ég drep þig og fjölskyldu þína ef þú stingur af.“
Barbara öskraði af skelfingu en Richard kastaði sér á hana og tók kverkataki þar til hún lognaðist út af. Hann skildi hana eftir liggjandi á gólfinu og fór heim til sín.
Eftir svefnlausa nótt fór Barbara í vinnuna og reyndi að hugsa ekki um það sem hafði gerst kvöldið áður. Hnífsstungan hafði meitt hana en hnífurinn hafði ekki farið djúpt inn. Þegar hún var að búa sig til heimferðar birtist Richard og var með blómvönd og bangsa og sagðist ætla að skilja við eiginkonu sína og kvænast Barbara. „Ég ógnaði þér af því að ég klikkast á að vera svona ástfanginn af þér,“ sagði hann.
Barbara féll fyrir þessu en óttaðist um leið um líf sitt. Hvað myndi gerast ef hún neitaði að giftast honum? „Ég tel mig ekki vera bjána en ég ólst upp sem góð lítil kaþólsk stúlka. Ég var vernduð og hafði aldrei séð svona grimmd hjá nokkurri manneskju,“ sagði hún síðar.
Richard skildi við konuna sína og flutti með Barbara til Sunset Street í Dumont í New Jersey. Þau gengu í hjónaband nokkrum vikum síðar en Barbara vissi ekki að eiginmaður hennar, sem færði henni rósir daglega, hafði þá þegar 65 mannslíf á samviskunni.
Richard ólst upp hjá ofbeldisfullum foreldrum sem beittu hann og systkini hans ofbeldi. Hann sagðist hafa brugðist við ofbeldinu á heimilinu með því að pynta hunda og ketti í skóginum bak við heimili fjölskyldunnar.
Þegar hann var fimm ára sá hann föður sinn myrða Florian, sem var átta ára bróðir hans. En móðir þeirra sagði lögreglunni að Florian hefði dottið niður stiga og því rannsakaði lögreglan málið ekki. Joseph, yngir bróðir Richard, var síðar dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir að hafa nauðgað og myrt konu.
Á unglingsaldri var Richard mjög ósáttur við heimilisaðstæðurnar, hann stóð sig illa í námi og var feiminn. Næstum daglega varð hann fyrir áreitni og ofbeldi af hálfu Charley Lane sem var foringi unglingagengis og slagsmálahundur. Að lokum fékk Richard nóg og barði Charley til bana með kylfu. Því næst réðst hann á aðra meðlimi gengisins.
Í bókinni „The Ice Man:Confessions of a Mafia Contract Killer“ segir hann að hann hafi ekki ætlað að drepa Charley. „Ég ætlaði bara að lemja hann aðeins en gat ekki stoppað.“
Richard klippti fingurgómana af Charley og dró tennurnar úr honum áður en hann kastaði líki hans út í á. „Ég lærði þetta í blaði. Með þessu er ekki hægt að bera kennsl á líkið ef það finnst,“ sagði hann. Líkið fannst aldrei. Engan grunaði að Richard væri viðriðinn hvarf Charley.
Þegar hann var 16 ára strauk hann að heiman og tók þá vinnu sem bauðst hverju sinni. Hann drakk áfengi nær daglega og varð þekktur sem skapstyggi strákurinn sem var alltaf tilbúinn í slagsmál, til að ræna fólk og stela bílum.
Enginn vissi að á nóttunni pyntaði hann og myrti heimilislaust fólk sem enginn saknaði og tilkynnti um hvarfið á. Hann faldi líkin í olíutunnum og gömlum námum. Yfirleitt klippti hann fingurna af og dró tennurnar úr líkunum.
Kvöld eitt var hann að spila biljarð á bar þegar hann tók eftir lögreglumanni, sem hafði nýlokið vakt, sem gerði grín að hvernig hann spilaði. Richard dró hann út og lamdi með kjuðanum. Hann gat heldur ekki stoppað í þetta sinn og drap lögreglumanninn. Hann setti líkið síðan inn í lögreglubílinn og ók út í skóg þar sem hann kveikti í bílnum og líkinu.
Fljótlega eftir að Richard og Barbara byrjuðu að búa saman varð hún barnshafandi. Allt gekk vel en eftir fimm mánaða meðgöngu brjálaðist Richard og sparkaði svo fast í maga hennar að hún missti fóstrið. Hún varð aftur barnshafandi nokkrum mánuðum síðar og aftur sparkaði Richard í maga hennar og hún missti fóstrið.
Barbara vildi skilja við hann en vissi að íhaldssamir foreldrar hennar myndu aldrei samþykkja það. Hún varð bara að þrauka þetta og reyna að njóta stundanna þar sem Richard var skemmtilegur, góður og heillandi. Út á við var hann mjög sjarmerandi en innan veggja heimilisins var hann allt annar maður. Hann lamdi Barbara og eyðilagði húsmuni.
Hann starfaði í ljósmyndaverslun þar sem hann fjölfaldaði Disneymyndir og klámmyndir fyrir mafíuna í New York. Eftir vinnu stal hann bílum og vörubílum og seldi öll verðmæti sem hann komst yfir til að geta keypt nýja húsmuni í stað þeirra sem hann eyðilagði. Þau höfðu nóg af peningum en Barbara þorði ekki að spyrja hvaðan þeir kæmu.
Barbara varð barnshafandi á nýjan leik og Richard gerði allt sem hann gat til að beita hana ekki ofbeldi. Þegar hann reiddist lamdi hann sjálfan sig í höfuðið eða lamdi göt á veggi. Á nokkrum árum eignuðust þau þrjú börn, Dwayne, Christin og Merrick. Richard naut föðurhlutverksins með þeim. Hann taldi sig vera strangan en réttlátan uppalanda. Hann ákvað að hætta afbrotum. En fljótlega fóru peningavandræði að sækja á. Laun þeirra hjóna dugðu ekki til framfærslu.
Richard var ósáttur við peningaleysið og fór í göngutúr á Manhattan til að dreifa huganum. Þar rakst hann á betlara sem gafst ekki upp þrátt fyrir neitun og elti Richard til að reyna að fá peninga. Að lokum reiddist Richard og sneri sér við og lamdi manninn aftur og aftur þar til hann datt lífvana niður á götuna. „Ég var miður mín yfir að hafa drepið hann. Það var óviljandi í þetta sinn. En þegar frá leið fékk ég mikið kikk út úr þessu,“ sagði hann síðar.
Hann elskaði þessa tilfinningu sem sótti á hann eftir að hafa drepið einhvern og ákvað að reyna að græða peninga á þessu. Hann fór til fundar við Roy DeMeo, mafíumeðlim, sem hafði keypt klámmyndir af honum og bauð fram þjónustu sína. „Þú verður að sanna að þú getir drepið,“ sagði DeMeo. Richard gekk yfir götuna að manni sem var að viðra hundinn sinn og skaut hann í hnakkann. Hann fékk starfið.
Á meðan Barbara sinnti börnunum hóf Richard morðferil fyrir mafíuna. Aldrei fyrr hafði neitt þessu líkt sést í undirheimunum og gerist þó ýmislegt þar. Hann myrti fyrir hinar ýmsu mafíufjölskyldur og notaði meðal annars handsprengjur, ísöxi, nálar, hnífa, eitur, reipi, skammbyssur og lásboga.
Vegna þess hversu fjölbreyttum aðferðum hann beitti taldi lögreglan að hún væri að eltast við tugi morðingja. En það var Richard sem bar ábyrgð á þessum morðum sem voru framin á austurströnd Bandaríkjanna. Mafíumeðlimir gáfu honum viðurnefnin „Einsmannsherinn“ og „Satan“.
Mörg morðanna voru keimlík en eitt gerði hann oft til að gera lögreglunni erfitt fyrir. Hann djúpfrysti líkin til að réttarmeinafræðingar gætu ekki skorið úr um hvenær viðkomandi lést. Af þessu er viðurnefnið „The Iceman“ dregið.
Ein af uppáhaldsmorðaðferðum hans var að nota nefúða með blásýru en með þeirri aðferð kom hann í veg fyrir að grunur vaknaði um morð.
Hann hélt morðunum og einkalífinu algjörlega aðskildu og mafían vissi ekki að hann ætti fjölskyldu og hafði ekki hugmynd um hvar hann bjó. Barbara hélt að hann starfaði í ljósmyndaversluninni og hafði ekki hugmynd um að hann var með lagerhúsnæði á leigu í Brooklyn þar sem hann pyntaði, myrti og frysti mörg af fórnarlömbunum. Hann fékk sem svarar til um 5 milljóna íslenskra króna fyrir hvert morð og gat því sent börnin í dýra einkaskóla og keypt allt það sem fjölskyldan þarfnaðist.
Eftir að hafa starfað fyrir mafíuna í 25 ár ákvað Richard að stofna sitt eigið glæpagengi og það varð honum að falli. Lögreglan hafði heyrt um „The Iceman“ árum saman en hafði ekki náð að tengja hann við morðin og dularfull mannshvörf.
1985 byrjuðu lögreglumennirnir Pat Kane og Dominick Polifrone að starfa með eina vini Richard innan mafíunnar, Phil Solimene. Solimene var þá orðinn uppljóstrari lögreglunnar en það eitt og sér jafngildir dauðadómi fyrir viðkomandi.
Markmiðið var að afla gagna um Richard til að sanna að hann væri afkastamesti raðmorðingi Bandaríkjanna. „Operation Iceman“ var hrundið af stað en fjöldi löggæslustofnana stóð að aðgerðinni. Dominick Polifrone gaf sig út fyrir að vera glæpamaðurinn Dominic „Dom“ Provenzano og komst í samband við Richard og sagðist vilja kaupa vopn af honum.
Richard leist vel á hann og þeir náðu vel saman. Hann var því óvenjulega opinskár við Dominic og sagði honum frá fjöldanum öllum af þeim morðum sem hann hafði framið og hvaða morðaðferðum hann hefði beitt síðustu 25 árin. Það var eins og hann vantaði vin.
Lögreglumennirnir stukku næstum hæð sína í loft upp þegar Richard setti sig í samband við Dominic og spurði hvort hann gæti útvegað hreina blásýru. Richard vissi ekki að samtalið var tekið upp og að allt það sem hann sagði yrði síðar notað gegn honum fyrir dómi.
Kvöld eitt hringdi Dominic í Richard og bað hann aðstoð við að drepa „ríkan gyðingastrák“ sem átti að vera með mikið magn af kókaíni í fórum sínum. Þeir skipulögðu að setja blásýru í samloku og gefa stráknum. Þeir sömdu um að skipta söluverðmæti kókaínsins á milli sín.
Um miðjan desember 1986 hringdi Richard í Dominic og sagði honum að allt væri til reiðu. Nú átti að drepa strákinn. Hann hafði útvegað sendibíl. Þeir hittust á götuhorni og Dominic lét hann fá samlokurnar sem átti að gefa stráknum. Richard afsakaði sig og sagðist þurfa að sinna smá erindi en kæmi strax aftur. En það gerði hann ekki. Hann hafði áttað sig á að eitthvað var í gangi.
Skömmu síðar sá lögreglumaður að Richard kom heim til sín í Dumont og var kófsveittur. Nú óttaðist lögreglan að líf Dominic væri í hættu.
Barbara tók á móti Richard og sagðist líða illa og þyrfti að fara til læknis. Þau settust í bílinn sinn og óku út úr innkeyrslunni. Þá stökk lögreglumaður upp á húddið og beinir skammbyssu að þeim. Síðan umkringdu þungvopnaðir lögreglumenn bílinn og sendibílar FBI birtust. Forvitnir nágrannar fylgdust með og lögregluþyrlur sveimuðu yfir.
Lögreglumaður frá FBI reif bílastjórahurðina upp og beindi skammbyssu að Richard og öskraði: „Don‘t fucking move!“
Richard var snaróður þegar hann var dreginn út úr bílnum. Fimm lögreglumenn þurfti til að halda honum föstum. Hann var strax fluttur í Bergen County Jail í Hackensack. Lögreglan óttaðist að mafían myndi frétta af handtökunni og eyðileggja aðgerðina.
Lögreglan átti erfitt með að sanna að Richard hefði staðið á bak við 200 morð hið minnsta en náði að finna sannanir fyrir fimm morðum auk vopnalagabrota, ránstilraunar, morðtilraunar og ráns.
Til að sleppa við dauðadóm gerði Richard, sem var orðinn 51 árs, samning við saksóknara um að játa tvö morð á sig.
„Hann er hugsanlega einn hættulegasti glæpamaðurinn sem við höfum haft í ríkinu frá upphafi. Við fáum kannski aldrei að vita hversu marga hann drap. Þetta er sjálfur djöfullinn,“ sagði Bob Carroll, saksóknari, skömmu fyrir dómsuppkvaðningu.
Kviðdómur var bara fjórar klukkustundir að komast að niðurstöðu um að Richard væri sekur um tvö morð. Hann var dæmdur í tvöfalt lífstíðarfangelsi án möguleika á náðun.
Richard afplánaði dóminn í Trenton State fangelsinu en það er eina hámarksöryggisfangelsið í New Jersey.
Hann ræddi við þáttgerðarmenn, rithöfunda, sálfræðinga og afbrotafræðinga og sagði frá uppvaxtarárunum og fjölskyldunni sinni sem hann saknaði sárt. Hann stærði sig af grimmdarlegum morðaðferðum sínum og sagðist hafa drepið 250 manns hið minnsta.
Hann var ósáttur við að vera sagður tilfinningalaus. „I‘m not The Iceman, I‘m The Nice Man“, sagði hann eitt sinn og sagði svo frá hrottalegu morði sem hann framdi.
Richard lést árið 2005, 71 árs að aldri. Hann átti að bera vitni fyrir dómi gegn mafíuleiðtoganum Sammy „The Bull“ Gravano um að hann hefði ráðið Richard til að drepa lögreglumanninn Peter Calabro árið 1980. En nokkrum dögum áður en réttarhöldin áttu að hefjast veiktist Richard og minntu sjúkdómseinkennin helst á kvikasilfurseitrun.
Á dánarbeðinum sagði hann við Barbara að hann væri hræddur um að hann hefði fengið að kenna á eigin meðali og að eitrað hefði verið fyrir honum.