Síðan Donald Trump tók á ný við embætti forseta Bandaríkjanna hafa yfirvöld þar í landi gengið hart fram við að vísa fjölda innflytjenda úr landi. Um hefur verið að ræða hælisleitendur jafnt sem fólk með landvistarleyfi í Bandaríkjunum. Misjafnt er hversu veigamiklar skýringar hafa verið gefnar á brottvísunum og í sumum tilfellum virðist ekki liggja fyrir að viðkomandi hafi gert mikið til að verðskulda brottvísun. Aðferðirnar hafa verið gagnrýndar á þeim grundvelli að allir eigi samkvæmt bandarískum lögum rétt á réttlátri málsmeðferð sem hafi ekki verið raunin í mörgum þessara tilfella en stuðningsmenn Trump segja meðal annars að það eigi ekki við um fólk sem hafi ekki bandarískan ríkisborgararétt. Þó eru dæmi um að fólk sem sannarlega er með slíkan rétt hafi fengið ógnandi bréf frá yfirvöldum þar sem viðkomandi er hreinlega skipað að yfirgefa landið.
NBC segir frá máli konu á sextugsaldri sem heitir Lisa Anderson. Hún er læknir og býr í Connecticut en er fædd í Pennsylvaníu ríki og er því svo sannarlega bandarískur ríkisborgari. Henni barst hins vegar nýlega bréf í tölvupósti frá heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna en í því stóð:
„Það er kominn tími til að þú yfirgefir Bandaríkin.“
Fram kemur í frétt NBC að enn sem komið er sé fjöldi brottvísana innflytjenda svipað margar á þessu ári og á sama tíma á síðasta ári, í stjórnartíð Joe Biden. Hins vegar leggi yfirvöld um þessar mundir aukna áherslu á að innflytjendur, sem vilji stendur til að losna við, yfirgefi landið af fúsum og frjálsum vilja.
Anderson segir að ekkert fari á milli mála að orðalag bréfsins sé ógnandi en þau svör fengust frá ráðuneytinu að bréf af þessu tagi eigi að berast til fólks sem hafi ekki leyfi, samkvæmt lögum, til að dvelja í Bandaríkjunum. Ráðuneytið segir vel mögulegt að bréfin hafi borist ríkisborgurum fyrir mistök vegna þess að innflytjendur hafi gefið upp netföng sem tilheyri viðkomandi.
Þetta er þó ekki fyrsta bréfið af þessu tagi sem borist hefur bandarískum ríkisborgara. Nicole Micheroni er lögmaður sem starfar á sviði innflytjendamála. Hún fékk bréf þar sem henni var sagt að yfirgefa landið innan sjö daga en því hefur ekki enn verið fylgt eftir.
Anderson er verulega brugðið og minnir á að hún komi sjálf ekkert nálægt innflytjendamálum. Hún segist ganga með vegabréf sitt á sér öllum stundum síðan hún fékk bréfið og er að leita sér að lögmanni. Anderson telur að fleiri bandarískir borgarar hafi fengið svona bréf en talið um ruslpóst að ræða. Hún segir ljóst að hún sé í vanda stödd.