Í frétt Aftonbladet í vikunni kom fram að fórnarlamb árásarinnar hafi tekist við illan leik að komast heim til sín og láta vita af árásinni. Var maðurinn á gangi heim til sín eftir að hafa heimsótt eiginkonu sína sem býr á hjúkrunarheimili.
Ekki löngu eftir árásina sem átti sér stað þann 11. september í fyrra fóru myndbönd af árásinni að birtast í ákveðnum hópum á samskiptaforritinu Telegram. Þannig tókst lögreglu að þrengja hringinn uns pilturinn, sem var 14 ára, var handtekinn. Hann játaði árásina í yfirheyrslum hjá lögreglu en þrætti fyrir hana fyrir dómi.
Sjá einnig: Andstyggilegir hópar herja á börn og neyða þau til að gera niðurlægjandi hluti
Í frétt Aftonbladet kemur fram að drengurinn hafi verið djúpt sokkinn í félagsskap sem kallast „No Lives Matter“ og „764“. Um er að ræða öfgahópa sem hafa þróast frá netglæpum yfir í raunveruleg ofbeldisverk í Evrópu og Norður-Ameríku. Hafa hóparnir verið tengdir við hnífaárásir, skotárásir, morð og önnur ofbeldisverk.
Í ítarlegri umfjöllun sem birtist hjá vefritinu Wired í marsmánuði kom fram að þessir hópar, sem nýta sér til dæmis Telegram og Discord til að hafa samskipti, nýti sér viðkvæm ungmenni og hvetji þau til að fremja ofbeldisverk. Beita þeir ýmsum áróðri í þessari viðleitni sinni, birta ofbeldisfullt myndefni og hvetja til sjálfsskaða og sjálfsvíga. Hafa þessir hópar á stefnuskrá sinni að valda einhvers konar glundroða með morðum og óhæfuverkum.
Bent var á það að í Bretlandi hafi 19 ára drengur verið dæmdur í sex ára fangelsi fyrir margvíslega glæpi tengda 764, þar á meðal vörslu barnaníðsefnis og fyrir að hvetja til sjálfsvígs.
Pilturinn í Svíþjóð sagði í yfirheyrslum hjá lögreglu að hann hefði verið beittur þrýstingi til að fremja ódæðið. Honum hafi liðið illa strax í kjölfarið og upplifað sorg. Sagði pilturinn að hann hefði kynnst hópnum 764 þegar hann var aðeins átta ára gamall. „Ef ég hefði ekki snert Internetið svona ungur þá væri ég kannski aðeins venjulegri í dag,“ sagði pilturinn við lögreglu.
Sjá einnig: Íslensk stúlka í klóm erlendra netníðinga – Myndbönd af henni alblóðugri til sýnis á spjallrás
Vegna ungs aldurs drengsins verður honum ekki gerð fangelsisrefsing í málinu. Hann mun þó þurfa að greiða manninum 256.200 sænskar krónur í bætur, rúmar 3,3 milljónir króna.
Það er ekki bara í Svíþjóð sem yfirvöld hafa áhyggjur af þróun hópa eins og No Lives Matter og 764. Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur varað við þessum hópum og lítur til dæmis á 764 sem hryðjuverkasamtök.
Í umfjöllun Wired voru nokkur mál rifjuð upp sem tengjast fyrrnefndum hópum. Árið 2022 myrti 17 ára Þjóðverji, Nino Luciano, eldri konu og særði mann alvarlega í hnífstunguárás. Hann var í beinni útsendingu á Discord þegar hann framdi ódæðið í hópi sem tengist 764. Luciano var dæmdur í 14 ára fangelsi í ágúst 2023 en hann er sagður hafa viljað „sanna sig“ fyrir öðrum meðlimum hópsins.
Í febrúarmánuði var svo 25 ára Bandaríkjamaður, Jairo Tinajero, sakfelldur fyrir að kúga unglingsstúlku og skipuleggja morð á henni. Birti hann til dæmis heimilisfang hennar á spjallrásum 764 og hvatti til ofbeldisverka gegn stúlkunni. Á Ítalíu var svo 15 ára drengur handtekinn um miðjan febrúar fyrir að skipuleggja morð á heimilislausum manni sem hann hugðist sýna í beinni útsendingu. Drengurinn tilheyrði fyrrnefndum 764-hópi og bíður hann nú réttarhalda fyrir að hafa sprengiefni undir höndum og barnaníðsefni.
Fleiri sambærileg mál hafa komið upp í Evrópu og Bandaríkjunum að undanförnu.