Það var á miðvikudaginn sem lögreglan mætti heim til Karls i Pahrum í Nye County og fann tígrisdýrin. NBC News skýrir frá þessu.
Joe McGill, lögreglustjóri, sagði í samtali við NBC News að lögreglunni hafi borist fjöldi tilkynninga í gegnum árin um að sést hefði til Karls á ferð með tígrisdýr, bæði á landareign hans og í eyðimörkinni.
Lögreglan segir að hann hafi ekki haft tilskilin leyfi til að halda tígrisdýr og auk þess hafi hann brotið aðrar reglur tengdar dýrahaldi. Meðal annars með því að leyfa fólki að vera nálægt dýrunum en hann deildi upptökum af því á samfélagsmiðlum.
Sýsluyfirvöld hafa árum saman staðið í bréfaskriftum við Karl þar sem þau hvöttu hann meðal annars til að losa sig við tígrisdýrin.
Karl telur hins vegar að hann þurfi ekki neitt sérstakt leyfi til að vera með tígrisdýr því þau hafi veitt honum tilfinningalegan stuðning og almenningi hafi ekki stafað nein ógn af þeim.
Hann segir einnig að sex af tígrisdýrunum hafi hann fengið frá Joe Exotic sem margir kannast eflaust við úr þáttaröðinni „Tiger King“ á Netflix. Hann afplánar nú 21 árs fangelsisdóm.