fbpx
Miðvikudagur 16.apríl 2025
Pressan

Eru þetta vonarstjörnur vonlausra demókrata?

Pressan
Mánudaginn 14. apríl 2025 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vinsældir Donald Trump Bandaríkjaforseta hafa dalað nokkuð síðan hann tók við embætti. Mörgum þykir hann hafa gengið of langt í tollamálum og að hann hafi lagt of mikla áherslu á aðgerðir gegn DEI-stefnum á vinnustöðum (fjölbreytni, jafnrétti og inngilding) eða gegn trans fólki í stað þess að ráðast í aðgerðir til að bæta kjör kjósenda svo sem með því að lækka verðlag og vexti.

Margir hefðu haldið að þetta hefði í för með sér auknar vinsældir hjá demókrötum, en raunin er þó önnur. Vinsældir demókrata hafa líka dalað og eru margir kjósendur þeirra hreinlega bálreiðir. Demókratar hafi svikið kjósendur, þeir séu í raun bara enn einn flokkurinn sem gangi hagsmuna auðvaldsins, það séu allir topparnir þar orðnir alltof gamlir og þegar þörfin var mest, eftir að Trump tók við embætti hafi demókratar valið að þegja og sumir jafnvel kysst vöndinn.

Kjósendur hafa mætt á íbúafundi demókrata og hreinlega hellt sér yfir kjörna fulltrúa. „Hvað með að prófa að berjast í alvörunni,“ segja þeir og kalla eftir virkri og háværri stjórnarandstöðu.

En það eru þó nokkrir demókratar sem hafa vakið jákvæða athygli undanfarið og mætti segja að þetta séu mögulega vonastjörnur vonlauss flokks.

Tim Waltz

Ríkisstjóri Minnesota var varaforsetaefni demókrata í forsetakosningunum. Hann hefur lagt land undir fót með fundaröð til að reyna að þétta raðir demókrata og sýna kjósendum að það séu enn aðilar innan flokksins sem séu tilbúnir að berjast og láta í sér heyra. Eins hefur hann verið með baráttufundi í ríkjum þar sem repúblikanar eru í miklum meirihluta í von um að sýna þeim sem eru óánægðir með framgöngu Trump að það séu fleiri valkostir í stöðunni. Hann leggur mikla áherslu á að eiga samtal og samráð við kjósendur sem hann spyr gjarnan hvað þeir vilja sjá frá demókrötum.

Nýlega ræddi hann við The Washington Post þar sem hann rakti helstu mistök sem demókratar gerðu í aðdraganda kosninganna. Demókratar hafi ekki náð til latneskra kjósenda (e. latino), hafi ekki hlustað á reiði margra kjósenda hvað varðar átökin á Gazaströndinni og eins hafi flokkurinn verið með lélega fjölmiðlastefnu.

„Það nægir samt ekki að kenna einhverju öðru um. Ég kenni kjósendum ekki um. Ég kenni því um sem við gerðum ekki. Ég kom með mínar tillögur. En ef þær verða ekki fyrir valinu þá mun ég vinna af mér rassgatið fyrir þær tillögur sem voru valdar í staðinn.“

Waltz hefur eins gengist við því að demókratar hafi skemmt fyrir sjálfum sér með því að neita of lengi að horfast í augu við að Joe Biden hefði ekki burði í að bjóða sig aftur fram gegn Trump.

Alexandria Ocasio-Cortez

Ein helsta vonastjarna demókrata er fulltrúadeildarþingkonan Alexandria Ocasio-Cortez. Hún virðist höfða til breiðfylkingar kjósenda og nýtur mikilla vinsælda. Hún þykir sósíalisti af gamla skólanum eða með öðrum orðum þá talar hún til verkalýðsins og gegn auðvaldinu. Hún þykir mjög alþýðuleg, talar ekki niður til kjósenda og leitast við að skilja ólík sjónarmið.

Hún er eins ung á mælikvarða bandarískra stjórnmála, en meðalaldur kjörinna fulltrúa þar í landi er almennt hærri en við þekkjum hér á Íslandi. Sem dæmi má nefna að fyrrverandi forseti Bandaríkjanna var 82 ára þegar hann lét af embætti og Donald Trump, núverandi forseti, verður 79 ára í sumar.

Ocasio-Cortez hefur nú slegist í för með öldungardeildarþingmanninum Bernie Sanders, sem situr á þingi utan flokka, en þau eru saman að berjast gegn því sem þau kalla yfirtöku ólígarka á bandarísku samfélagi. Bernie Sanders er álíka vinsæll meðal breiðrar fylkingar kjósenda, jafnvel meðal sumra sem teljast langt til hægri. Það má rekja til þess einmitt að áratugum saman hefur Sanders verið sjálfum sér samkvæmur í baráttu sinni fyrir verkalýð og gegn stéttaskiptingu.

Ocasio-Cortez er það vinsæl að það er ekki óalgengt að sjá repúblikana lýsa því yfir á samfélagsmiðlum að ef hún biði sig fram til forseta myndu þeir mögulega kjósa hana og jafnvel þeir sem geta ekki hugsað sér að kjósa sósíalista segjast þó margir bera mikla virðingu fyrir henni.

Al Green

Fyrir rúmum mánuði síðan skulfu kjósendur demókrata, liggur við, af reiði út í þingmenn sína. Kjósendum þóttu þingmennirnir hafa brugðist sér. Svo virtist sem að þingmennirnir ætluðu að hafa sig hæga og leyfa ríkisstjórninni að gera kjósendur afhuga sér með hörðum og umdeildum aðgerðum sínum.

Þetta hefði kannski virkað ef það væri ekki fyrir kjósendur í miðjunni og til vinstri sem voru að upplifa mikla örvæntingu og vildu að kjörnu fulltrúar þeirra væru að berjast með kjafti og klóm.

Þá kom Al Green til sögunnar. Þegar Donald Trump fór með sína fyrstu ræðu sem forseti á þinginu byrjaði Al Green að hrópa. Green er 77 ára og kemur frá Texas og notar staf til að hjálpa sér við gang. Hann hrópaði að Trump hefði ekki umboð kjósenda til að skera niður opinberar sjúkratryggingar og otaði hann stafnum í átt að forsetanum.

Fyrir vikið var Green áminntur.

Þetta vakti athygli þar sem leiðtogi minnihluta fulltrúadeildarinnar, Hakeem Jeffries, hafði sagt þingmönnum stjórnarandstöðunnar að þau ættu að sitja á sér á meðan Trump færi með ræðuna. Engin skilti, engin mótmæli og ekkert uppþot sem Repúblikanar gætu notað gegn þeim.

Fleiri þingmenn fóru gegn þessum ráðum, svo sem með því að halda á lofti, svo lítið bæri á, litlum skiltum með léttum skotum á aðgerðir meirihlutans. Þetta dugði þó ekki kjósendum demókrata sem sögðu að þeir vildu engin skilti, enga hljóðláta andspyrnu. Þeir vildu Al Green, þingmann sem var tilbúinn að öskra fyrir kjósendur sína.

Cory Booker

Cory Booker er öldungadeildarþingmaður sem náði nýlega að kveikja von meðal vonlausra kjósenda demókrata. Þetta gerði Booker með því að halda metræðu á þingi. Hann talaði í 25 klukkustundir en samkvæmt bandarískum þingskaparlögum er enginn hámarkstími á ræðu. Þó gildir sú regla að þingmaður verður að klára ræðuna í einni atrennu. Booker mátti því hvorki nærast né létta af sér á þessum rétt rúma sólarhring sem hann stóð fyrir framan ræðupúltið.

Ekki var um eiginlegt málþóf að ræða þar sem Booker var ekki að tefja afgreiðslu á frumvarpi heldur aðeins að tefja þingstörf fyrst og fremst til að mótmæla og til að kveikja von. Hann talaði í 25 klukkustundir gegn Donald Trump, hann talaði og talaði til að sýna að andspyrnan er raunveruleg, stjórnarandstaðan er enn virk, hún er ekki örmagna og hún er tilbúin að berjast. Hann sagðist seinna hafa undirbúið sig vel fyrir þennan gjörning sem megi fyrst og fremst rekja til ákalls kjósenda.

Þegar hann byrjaði ræðuna voru fáir að fylgjast með heima í stofu en eftir því sem klukkutímarnir liðu þá fjölgaði áhorfendum. Færslum á samfélagsmiðlum fjölgaði. Fólk tók eftir þessu, það áttaði sig á skilaboðunum og fagnaði framtakinu.

Nokkrum dögum eftir ræðuna sagði Booker við fjölmiðla: „Ég held að demókratar hafi tapað mörgum kosningum því fólk trúði því ekki að flokknum væri annt um þau. Svo við skulum hætta að hafa áhyggjur af pólitíkinni og einbeita okkur meira að fólkinu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Hélt að fyrrverandi væri að senda hótanir – Sannleikurinn kom í ljós þegar hún fannst myrt

Hélt að fyrrverandi væri að senda hótanir – Sannleikurinn kom í ljós þegar hún fannst myrt
Pressan
Fyrir 2 dögum

Hversu hollt er að borða einn banana á dag?

Hversu hollt er að borða einn banana á dag?
Pressan
Fyrir 3 dögum

Þess vegna sérðu (næstum) aldrei stjörnur þegar þú kíkir út um flugvélarglugga

Þess vegna sérðu (næstum) aldrei stjörnur þegar þú kíkir út um flugvélarglugga
Pressan
Fyrir 3 dögum

Þessi áfengi drykkur hringir viðvörunarbjöllum hjá barþjónum

Þessi áfengi drykkur hringir viðvörunarbjöllum hjá barþjónum
Pressan
Fyrir 4 dögum

Kenningu varpað fram um slysið sem varð fimm manna fjölskyldu að bana

Kenningu varpað fram um slysið sem varð fimm manna fjölskyldu að bana
Pressan
Fyrir 4 dögum

Útfararstjóri ákærður fyrir fjölda brota

Útfararstjóri ákærður fyrir fjölda brota