Í apríl árið 2023 var tilkynnt að einn aðili hefði verið með allar tölurnar réttar í lottóinu og var potturinn sá þriðji stærsti í sögunni, eða 95 milljónir Bandaríkjadala, rúmir 12 milljarðar króna á núverandi gengi.
Síðar spurðist það út að sigurvegarinn hafði keypt næstum allar raðirnar sem í boði voru, eða 25,8 milljónir og kostaði hver röð 1 dollara. Þetta þýðir að kaupandinn greiddi 25,8 milljónir dollara fyrir miðana.
Þar sem sigurvegarinn ákvað að taka vinninginn út í einni greiðslu en ekki yfir ákveðið tímabil lækkaði heildarvinningurinn niður í 57,8 milljónir dala. En, engu að síður, græddi kaupandinn rúmar 20 milljónir dollara á þessu ævintýri.
Houston Chronicle fjallaði fyrst um málið í lok síðastliðins árs og hefur málið vakið talsverða reiði í Texas. Dan Patrick, vararíkisstjóri Texas, sagði til dæmis fyrr í mánuðinum að um væri að ræða stærsta þjófnað í garð í Íbúa Texas í sögu ríkisins. Sagði hann þetta vera „meiri þjófnað en öll bankarán og lestarán“ í villta vestrinu í gamla daga.
Það var fyrirtæki að nafni Rook TX frá Delaware sem innleysti vinninginn en í tilkynningu eftir útdráttinn kom fram að vinningshafinn myndi vilja njóta nafnleyndar.
Í frétt ástralska miðilsins News.com.au kemur fram að engin lög banni kaup sem þessi á lottómiðum. Þess má þó geta að kaupandinn tekur ákveðna áhættu, enda getur vinningurinn skipst á milli fleiri aðila og lækkar þá vinningsupphæðin.
Wall Street Journal greinir frá því að mennirnir að baki Rook TX séu þeir Bernard Marantelli, fyrrverandi bankastarfsmaður í London, og Zeljko Ragonajec, ástralskur áhættufjárfestir frá Tasmaníu.
Ragonajec þessi hefur gengið undir viðurnefninu „Loch Ness-skrímslið“ vegna þess hversu sjaldan hann sést opinberlega. Báðir hafa þeir verið viðriðnir veðmálabransann og kom Ragonajec til dæmis að stofnun veðmálafyrirtækisins ColossusBets árið 2018.
Þá á hann fyrirtæki sem heitir White Swan Data en þar starfa meðal annars sérfræðingar sem greina alþjóðlega veðmálamarkaði og selja innsýn til fjárhættuspilara. Og það var einmitt þetta fyrirtæki sem sá tækifæri í lottópottinum í Texas. Í samstarfi við Lottery.com fékk fyrirtækið aðgang að fjórum miðaútprentunartækjum þar sem yfir 100 miðar prentuðust á hverri einustu sekúndu. Náði fyrirtækið að kaupa 99,3% allra raðanna í lottóinu og það dugði til sigurs þar sem enginn annar var með allar tölur réttar.
Málið hefur þegar haft töluverð áhrif og hefur Texas Lottery Commission hert reglur sem eiga að gera hópkaup sem þessi erfiðari.