Beiðni kandadískrar trans konu um að afplána lífstíðardóm, sem hún hlaut fyrir að myrða maka sinn og börn þeirra tvö, hefur verið hafnað og mun hún þurfa að afplána dóminn í fangelsi sem ætlað er karlmönnum.
Kanadíska ríkisútvarpið CBC greinir frá því að Levana Ballouz hafi framið ódæðið á heimili fjölskyldunnar í Brossard sem er úthverfi Montréal í desember 2022. Stakk hún konu sína Synthia Bussières til bana og kæfði syni þeirra tvo, Éliam sem var fimm ára og Zac sem var tveggja ára.
Hún var sakfelld í desember síðastliðnum og við dómsuppkvaðningu kallaði dómarinn í málinu hana sadíska og slóttuga. Hún hlaut lífstíðarfangelsi en mun geta sótt um reynslulausn eftir 25 ár.
Í frétt CBC kemur fram að þegar hún var ákærð hafi Levana Ballouz gengið undir nafninu Mohamad Al Ballouz sem bendir til að kynleiðréttingarferlið hafi hafist eftir ódæðið. Hvort þetta sé talið merki um misnotkun á þessu ferli kemur ekki fram í fréttinni.
Ballouz fór eins og áður segir fram á að afplána í kvennafangelsi en verður hins vegar send í fangelsi fyrir karlmenn.
Fangelsismálastofnun Kanada hefur þá stefnu að almennt sé fangar sendir í fangelsi sem samræmist kynvitund þeirra nema til staðar séu ástæður sem snúi að heilbrigði og öryggi sem mæli gegn því. Hvert og eitt mál sé metið en stofnunin neitaði að gefa aðrar upplýsingar en þær að Ballouz muni þurfa að afplána dóm sinn í fangelsi sem ætlað sé karlmönnum.