Allir starfsmennirnir eru með góðkynja æxli, þar af tveir með svokallað himnuæxli. Þá hafa sex aðrir starfsmenn af sömu hæð greinst með önnur, ótilgreind heilsufarsvandamál.
Í frétt NBC News kemur fram að forsvarsmenn sjúkrahússins hafi rannsakað málið ítarlega og ýmsum tilgátum verið varpað fram. Þannig hefur verið skoðað hvort orsökin sé hugsanlega geislun frá röntgentækjum eða einnota andlitsgrímur sem hjúkrunarfræðingar nota.
Þá hefur verið skoðað hvort eitthvað í umhverfinu skýri veikindin, til dæmis notkun á skordýraeitri og hreinsiefnum á sjúkrahúsinu. Ekkert hefur enn fundist sem varpað getur ljósi á málið og segjast stjórnendur sjúkrahússins þess fullvissir að orsökina sé ekki að finna innan veggja spítalans.
„Við getum fullvissað okkar frábæra starfsfólk … og alla sjúklinga okkar um að engin umhverfisáhætta sé til staðar í okkar húsnæði,“ segir í yfirlýsingu frá sjúkrahúsinu sem bandarískir fjölmiðlar vitna til.
Stéttarfélag hjúkrunarfræðinga í Massachusetts gagnrýnir aftur á móti að rannsókn sjúkrahússins hafi ekki verið fullnægjandi. Hefur félagið sagt að það ætli að framkvæma eigin rannsókn.