Lana Turner var mikil stjarna í kvikmyndaheiminum frá því um miðri 20. öld og fram að áttunda áratug aldarinnar. Hún var eins og raunin hefur stundum verið með mikla listamenn ekki við eina fjölina felld í ástarmálum. Turner giftist alls átta sinnum, þar af sama manninum tvisvar, en öll hjónaböndin enduðu með skilnaði eða ógildingu og ekkert þeirra entist lengur en í fjögur ár. Hún eignaðist eina dóttur, Cheryl. Um það bil sem að fimmta hjónabandinu var að ljúka tók Turner upp samband við mann að nafni Johnny Stompanato. Hún áttaði sig hins vegar ekki fyrr en það var um seinan hvað mann hann hafði að geyma. Leikkonan heimsfræga var þá orðin föst í viðjum ofbeldissambands og það sem líklega enn verra var að dóttir hennar fór ekki varhluta af því. Á endanum stóðu mæðgurnar frammi fyrir hryllingi kvöld nokkurt í apríl 1958.
Lana Turner fæddist 1921 í Idaho í Bandaríkjunum en þegar hún var 15 ára fluttist hún til Kaliforníu ásamt fjölskyldu sinni og var ekki löngu síðar uppgötvuð af manni sem var að leita að framtíðarleikkonum. Fyrst kvikmyndahlutverkið kom í kjölfarið í kvikmyndinni They Won’t Forget sem frumsýnd var 1937.
Fyrstu árin lék Turner aukahlutverk en þegar komið var fram á fimmta áratuginn fóru henni að bjóðast aðalhlutverk og hún fór að festa sig í sessi sem þekkt nafn í kvikmyndaheiminum. Eina mest lof fékk hún fyrir hlutverk sitt sem hin slóttuga Cora Smith í myndinni The Postman Always Rings Twice frá 1946.
Næsta áratuginn eftir frumsýningu þeirrar myndar var ferill Lönu Turner í miklum blóma. Aðalhlutverkin komu á hverju ári, stundum fleiri en eitt og fleiri en tvö, og segja má hátindinum hafi hún náð með hlutverki sínu, sem atvinnurekandinn Constance Mackenzie, í Peyton Place árið 1957 en fyrir það var Turner tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir bestan leik í aðalhlutverki. Verðlaunin voru afhent í mars 1958 en Turner hlaut þau ekki og þetta var hennar eina tilnefning til verðlaunanna á ferlinum.
Þegar stjarna Turner skein sem skærast varð hún að eins konar menningarlegu tákni um glamúrinn í Hollywood á þessum tíma sem síðar var kallaður gullöld kvikmyndanna.
Eins og áður kom fram giftist Turner alls 8 sinnum en þar af sama manninum tvisvar, Joseph Stephen Crane sem einnig var leikari á þeim tíma sem þau byrjuðu að draga sig saman, á fimmta áratug síðustu aldar, en hann lagði síðar leiklistina á hilluna og fór út í veitingahúsarekstur. Með Joseph eignaðist Turner sitt eina barn, dótturina Cheryl. Sambandi Turner og Crane lauk endanlega 1944.
Síðan liðu árin og fram til 1957 komu tvö hjónabönd hjá Turner í viðbót. Um vorið þetta ár var hún gift manni að nafni Lex Barker en brestir voru komnir í hjónabandið. Þetta vor var hún við tökur á kvikmyndinni The Lady Takes a Flyer þegar maður nokkur fór að sýna henni mikinn áhuga. Hann hringdi á tökustaðinn og sendi henni blóm. Augljóst var að maðurinn hafði mikinn áhuga á nánari kynnum við kvikmyndastjörnuna en hann sagðist heita John Steele. Turner var þarna orðin 36 ára gömul en maðurinn áhugasami var 4 árum yngri.
John Steele var þó ekki hans raunverulega nafn. Hann hét Johnny Stompanato og það sem Turner vissi ekki var að vonbiðill hennar var glæpamaður. Stompanato var einn af skósveinum glæpaforingjans Mickey Cohen sem var einn hæst setti maðurinn í mafíunni í Los Angeles á þessum tíma.
Svo mikinn áhuga og ákveðni sýndi Stompanato að Turner heillaðist og þau hófu óformlegt samband. Turner reyndi að slíta því þegar hún frétti loks við hvers konar mann hún var komin í samband við en Stompanato var ekki á þeim buxunum að leyfa henni að sleppa.
Um sumarið 1957 skildi Lana Turner við Lex Barker eftir að Cheryl, dóttir hennar, upplýsti að hann hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi. Mun Turner hafa beint byssu að Barker og vísað honum út af heimili þeirra.
Í raun tók hins vegar ekkert mikið betra við. Sambandið við Stompanato hélt áfram og Turner gekk illa að losna úr því. Hann beitti hana líkamlegu og andlegu ofbeldi. Stundum svaraði hún fyrir sig en stundum ekki. Eins og oft er raunin í ofbeldissamböndum bar Turner án efa mótsagnakenndar tilfinningar í brjósti í garð Stompanato. Hún vildi bæði losna við hann en bar eflaust líka tilfinningar til hans sem átti líklega þátt í að iðulega sættust þau eftir rifrildi þeirra á milli eða ofbeldi af hans hálfu.
Frægasta dæmið um ofbeldi Stompanato í garð Turner var þegar hann heimsótti hana í Englandi í september 1957 en þar var hún við tökur á kvikmyndinni Another Time, Another Place en meðal annarra leikara í myndinni var Sean Connery, sem síðar átti eftir að öðlast heimsfrægð í hlutverki James Bond. Rifrildi upphófst á milli Stompanato og Turner þegar hún tók ekki vel í þá hugmynd að hann myndi heimsækja tökustaðinn. Hann tók hana í kjölfarið kyrkingartaki. Eftir það hafði hún samband við bresku lögregluna til að fá honum vísað úr landi. Stompanato frétti af því og mætti með byssu á tökustað myndarinnar og ógnaði bæði Turner og Connery sem sýndi mikið snarræði og afvopnaði Stompanato sem brá þá á það ráð að flýja af vettvangi. Lögreglumenn ráðlögðu honum í kjölfarið að yfirgefa landið og hlýddi hann því. Turner og Stompanato sættust þegar hún sneri aftur til Bandaríkjanna en eins og alltaf í þeirra sambandi átti sú sátt ekki eftir að endast.
Í lok mars 1958 voru Óskarsverðlaunin afhent. Eins og áður kom fram var Lana Turner meðal þeirra sem tilnefnd voru. Turner var ekki spennt fyrir því að Stompanato myndi fylgja henni á hátíðina. Því reiddist hann mjög og réðst á hana þegar hún sneri aftur heim að lokinni hátíðinni.
Ein vika leið en að kvöldi 4. apríl kom Stompanato á heimili Turner en hún og Cheryl, sem þá var orðin 14 ára, bjuggu þá í húsi í Beverly Hills í Los Angeles sem Turner leigði.
Það sem gerðist næst voru þær mæðgur á endanum einar til frásagnar um.
Upphófst rifrildi milli Turner og Stompanato sem hótaði Turner öllu illu og sagðist skyldu beita hana og Cheryl margvíslegu ofbeldi. Cheryl varð óhjákvæmilega var við rifrildið en móðir hennar bað hana um að halda sig til hlés. Turner fékk á endanum nóg og sagði við Stompanato að sambandi þeirra væri hér með lokið og vísaði honum á dyr. Þegar hann gerði sig ekki líklegan til að virða það reyndi Turner að ýta honum út en hann tók á móti. Cheryl heyrði vel hvað var að gerast og óttaðist að líf móður hennar væri í hættu. Hún sótti hníf inn í eldhúsið og hélt beint inn í svefnherbergi móður sinnar, þar sem átökin áttu sér stað. Þegar Stompanato varð hennar var færði hann sig snögglega í átt að henni með hönd á lofti en hún lyfti hnífnum sem stakkst í kvið Stompanato. Viðbragðsaðilar voru í kjölfarið kallaðir á vettvang en ekki tókst að bjarga lífi mannsins sem kom inn í líf kvikmyndastjörnunnar aðeins tæpu ári áður og setti allt á annan endann.
Turner reyndi í fyrstu að taka á sig sökina en svo fór að Cheryl játaði að hafa orðið Stompanato að bana.
Fjölmiðlar fréttu fljótlega af atburðinum og upphófst þá mikið fár.
Morguninn eftir mætti Cheryl ásamt foreldrum sínum á lögreglustöð þar sem hún gaf skýrslu og var í kjölfarið formlega handtekin og flutt í unglingafangelsi.
Rannsókn dánardómstjóra fór fljótlega fram fyrir dómi og var öllum opin en við það minnkaði ekki fjölmiðlafárið. Ýmsir aðilar báru vitni meðal annars faðir Cheryl. Lögregluforingi bar einnig vitni og sagðist telja framburð Cheryl trúverðugan. Lana Turner bar sömuleiðis vitni. Vitnisburður hennar var mjög tilfinningaríkur en hún lýsti atburðum kvöldsins og sagði allt hafa gerst svo hratt. Hún hefði aldrei séð neinn hníf fyrr en Stompanato lá óvígur á gólfinu. Lýsti hún hljóðunum sem hann gaf frá sér við dauðastríðið og þegar vitnisburðinum lauk streymdu tárin niður kinnar kvikmyndastjörnunnar.
Turner var sökuð af mörgum um að hafa við þetta tækifæri nýtt leikhæfileika sína til fullnustu og samsæriskenningar komust á kreik um að hún hefði orðið Stompanato að bana en ekki Cheryl en beðið hana um að taka á sig sökina í von um að henni yrði í ljósi ungs aldurs sýnd meiri mildi. Aðrir sögðu hins vegar að þarna hefði einfaldlega verið móðir, sem þótti ofurvænt um dóttur sína og hefði eins og hún orðið fyrir gríðarlegu áfalli, að tala í fyllstu einlægni.
Niðurstaða rannsóknarinnar var að aðgerðir Cheryl hefðu verið réttlætanlegar og hún var ekki sótt til saka. Afskiptum yfirvalda af þeim mæðgum var hins vegar ekki lokið. Cheryl var áfram í umsjá yfirvalda en dómari lýsti yfir áhyggjum af því umhverfi sem hún byggi við hjá foreldrum sínum. Svo fór að hann úrskurðaði að Cheryl skyldi vera í umsjá móðurömmu sinnar en að hún skyldi sækja sálfræðimeðferð með móður sinni og föður.
Fjölmiðlar sökuðu Turner um að setja vitnisburð sinn á svið og fjölskylda Stompanato sakaði hana og Cheryl um lygar og sagði hann ekki hafa notið sannmælis við rannsóknina. Sakaði fjölskyldan Turner um hafa banað honum en að Cheryl hefði tekið á sig sökina. Fjölskyldan lögsótti mæðgurnar og á endanum var samið um sáttagreiðslu.
Málið hefur síðan verið eitt af alræmdustu glæpamálum í Hollywood en hin opinbera niðurstaða var þó sannarlega að enginn glæpur hafi verið framin heldur hafi aðeins unglingsstúlka verið að koma móður sinni til hjálpar í viðureign hennar við ofbeldisfullan kærasta. Allt fram til dagsins í dag hafa þó verið uppi fullyrðingar um að þær mæðgur hafi logið og Turner hafi verið sú sem varð Stompanato að bana. Þar á meðal er fólk sem þekkti Turner persónulega og sagði hana hafa játað þetta í einkasamtölum.
Cheryl hefur þó alla tíð harðneitað því. Hún segist hafa valdið dauða Stompanato og að móðir hennar hafi svo sannarlega ekki verið að leika í áðurnefndum vitnisburði. Móðir hennar hafi verið afar áhyggjufull yfir því hvað myndi verða um dóttur hennar. Hún segir móður sína hafa verið að berjast fyrir hennar hönd og að hún hefði aldrei nokkurn tímann látið hana taka á sig sökina fyrir það að verða manni að bana.
Ferill Lana Turner var alls ekki á enda eftir hið mikla fár vegna dauða Stompanato en málið varpaði ætíð vissum skugga yfir feril hennar og í raun hafði hún náð hátindinum áður en Stompanato dó á gólfinu heima hjá henni. Svo hátt náði ferill hennar ekki aftur en hún hélt áfram að fá hlutverk.
Fyrsta hlutverkið eftir að málinu lauk var í myndinni Imtitation of Life en í henni lék Turner einmitt leikkonu sem á í persónulegum erfiðleikum. Í ljósi nýliðinna atburða voru tökurnar Turner erfiðar og hún var oft á tíðum full kvíða og átti sérstaklega erfitt með tilfinningaríkustu atriðin sem hún lék í. Hún hlaut þó á endanum góða dóma fyrir frammistöðu sína í myndinni og áhorfendur flykktust í kvikmyndahús til að sjá myndina en líklega vöktu atburðirnir í einkalífi Turner þeim mun meiri áhuga áhorfenda á myndinni.
Miðasalan skilaði töluverðum gróða sem kom sér vel fyrir Turner sem hafði í stað þess að þiggja föst laun eins og hún var vön samið um að fá í staðinn visst hlutfall af miðasölutekjunum. Sú ákvörðun tryggði henni hæstu upphæð sem hún hafði fengið á ferlinum fyrir eitt hlutverk.
Eftir því sem leið á sjöunda áratuginn fór kvikmyndahlutverkum sem Turner stóð til boða fækkandi eins og oft vildi verða með leikkonur í Hollywood þegar aldurinn fór að færast yfir en hún var þá farin að nálgastst fimmtugt. Hún hafði í um aldarfjórðung yfirleitt leikið aðahlutverk í kvikmyndum sem voru sýndar í öllum helstu kvikmyndahúsum en nú voru aðeins í boði aðalhlutverk í minni verkefnum. Turner sneri sér þá aðallega að verkefnum í leikhúsi og sjónvarpi. Síðasta hlutverkið lék hún 1985 og tíu árum síðar var hún öll af völdum krabbameins í hálsi en Lana Turner reykti stærstan hluta ævinnar.
Þegar Lana Turner var á hátindi ferils síns var hún sannarlega kvikmyndastjarna á toppi tilverunnar en kynni hennar af Johnny Stompanato er ágætis áminning um að enginn er algerlega óhultur fyrir ofbeldi. Ofbeldissambönd spyrja ekki um stétt eða þjóðfélagsstöðu. Þótt Lana Turner væri heimsfræg kvikmyndaleikkona festist hún í viðjum ofbeldissambands við Johnny Stompanato og þótt hún lifði það af varð líf hennar í raun aldrei samt.