En fréttum um að milljarðamæringurinn Jeff Bezos, stofnandi Amazon, og Lauren Sánchez, fyrrum fréttakona, ætli að ganga í hjónaband í Feneyjum í sumar, var ekki tekið af sömu gleði og fréttunum af hjónabandi Clooney-hjónanna.
The Guardian segir að þau stefni að þriggja daga veislu í lok júní og muni ítalski tískuhönnuðurinn Domenico Dolce sjá um skipulagningu hennar.
Ítalskir fjölmiðlar segja að skipuleggjendur brúðkaupsins hafi bókað öll herbergin á fimm fínustu hótelum borgarinnar og pantað nær alla gondólana sem og pláss fyrir risastóra snekkju Bezos. Reiknað er með mörg hundruð gestum. Donald Trump verður hugsanlega meðal þeirra.
Feneyjabúar hafa lengi kvartað yfir ágangi ferðamanna og á síðasta ári var byrjað að krefja ferðamenn um aðgangseyri þegar þeir koma í dagsferðir til borgarinnar. Er það gert til að reyna að fæla einhverja frá.
Luigi Brugnaro, borgarstjóri, er hins vegar mjög sáttur við brúðkaup sumarsins og segir að það muni færa borginni milljónir evra í tekjur.
En það taka ekki allir undir með honum og til dæmis sagði leiðsögukonan Francesca: „Þetta verða mikil óþægindi. Ég held að flestir séu sömu skoðunar.“