Carly Electric, eins og hún er kölluð, hefur alla tíð verið heilluð af eldingum og í desember 2023 skall á mikið eldingaveður nærri heimaslóðum hennar í Queensland. Carly fór út úr húsi til að taka myndir en ekki vildi betur til en svo að hún fékk eldingu í höfuðið.
Í samtali við Jam Press lýsir Carly atvikinu sem hafði ýmsar afleiðingar í för með sér.
Í fyrstu virtist hún ekki vera mikið slösuð og rifjar hún upp að hún hafi verið með mikla gæsahúð á báðum handleggjum. Þegar hún leit í spegil sá hún að sjáöldur augna hennar voru risastór.
Ekki leið á löngu þar til hún missti allan mátt í útlimum og var þá ákveðið að hringja á sjúkrabíl. Þegar sjúkraflutningamenn komu á staðinn voru útlimirnir orðnir bláir og fljótlega eftir komuna á sjúkrahús átti hún skyndilega orðið erfitt með að anda.
Á sjúkrahúsinu greindist hún með það sem kallast keraunoparalysis, sem er tímabundin lömun eða máttleysi í útlimum sem getur komið fram eftir að einstaklingur verður fyrir eldingu. Ástandið hjá henni varði í um níu klukkustundir en hægt og rólega náði hún fyrri styrk.
Það var hins vegar ein óvænt og óafturkræf breyting sem varð á henni eftir þessa óhugnanlegu lífsreynslu. „Augun í mér sem einu sinni voru græn eru núna orðin dökkbrún,“ segir hún.
Hún segist hafa flett þessu upp á netinu og komist að því að þetta væri ekki endilega óalgengt hjá þeim sem verða fyrir eldingu.
„Ég er líka mjög viðkvæm í húðinni þar sem eldingunni sló niður og þarf að fara mjög varlega þegar ég greiði mér,“ segir hún. Carly telur þó að reynslan hafi haft eitt gott í för með sér, ástarlífið hefur aldrei verið betra.
„Karlmenn virðast vera mjög spenntir að heyra mig lýsa þessari reynslu. Ég held í fúlustu alvöru að þetta hafi verið happa-elding því líf mitt varð svo miklu betra eftir þetta.“