Vivian Wilson er enginn aðdáandi föður síns enda hefur hann sjálfur lýst því yfir að þetta tiltekna barn hans sé látið, en Vivian er trans kona og faðir hennar, Elon Musk, er á móti trans fólki. Musk segir að vók-vírusinn hafi orðið syni hans að bráð.
Vivian hefur ekki veigrað sér við því að gagnrýna föður sinn sem hún segir engan fjölskyldumann, þó að hann haldi öðru fram á opinberum vettvangi.
Hún mætti á dögunum í viðtal hjá áhrifavaldinum Hasan Piker og rakti þar í löngu máli hvernig faðir hennar er hræsnari.
Musk hefur sjálfur lýst því yfir að hann hafi verið vinstrisinnaður, kjósandi Demókrataflokksins, þar til hann fékk nóg og fór að halla sér til hægri. Vivian segir þetta lygi.
„Fólk heldur að þetta sé mér að kenna,“ sagði Vivian um snúning föður síns til hægri. „En ég get ekki tekið heiðurinn af þessu, því miður.“
Vivian sagði að það hafi hentað föður hennar á sínum tíma að þykjast vera frjálslyndur og vinstri sinnaður enda var hann að selja rafbíla sem til að byrja með höfðuðu helst til þeirra sem styðja umhverfisvernd og eru gjarnan til vinstri í pólitík.
„Elon Musk var samt ekkert frjálslyndis krútt. Ég fokking þekki hann, hann var aldrei vinstrisinnaður. Þetta var allt sölutrix.“
Vivian segir enn fremur að Telsa sé í raun svikamylla, það sé verið að blekkja fjárfesta með því að greiða þeim út peninga sem koma í raun frá nýjum fjárfestum frekar en frá raunverulegum hagnaði bílaframleiðandans. Hún segir að faðir hennar hafi lengi villt á sér heimildir en hafi í raun verið hægri maður síðan, að minnsta kosti árið 2016. Hann hafi þó líklega aldrei verið vinstrisinnaður.
„Fólk heldur að við búum í skáldsögu, að kynleiðrétting mín hafi verið einhver vendipunktur fyrir hans persónu. Þetta er engin skáldsaga og ég er enginn orsakavaldur.“
Hún telur að faraldur COVID-19 hafi haft mikil áhrif á viðhorf Musk. Hann var á móti sóttvarnaraðgerðum og bóluefni.
„Í einu okkar síðasta samtali vorum við að rífast um grímuskyldu. Hann sendi mér grínmynd af kind og sagði mér að hætta að vera hjarðdýr. Það var frekar hallærislegt.“
Vivian segir að faðir hennar sé „óöruggur, lítill fábjáni“ sem hafi logið því að heiminum að hann væri snilldarfrumkvöðull þrátt fyrir að hafa í raun ekki gert nokkuð markvert sjálfur.
Hann hafi meira að segja logið því að hann sé góður í tölvuleikjum.
„Ég get afhjúpað nokkuð sem mér þykir helvíti fyndið,“ sagði unga konan og rakti að þegar hún og tvíburabróðir hennar voru 12 ára hafi Musk notað þau til að vinna sig upp í leiknum Overwatch. Sjálfur hafi hann verið vonlaus í leiknum. Föður hennar dreymi þó um að vera virtur í leikjasamfélaginu og hann þrái að verða eins og persónan Nolan Sorrento, sem er persóna úr vísindaskáldsögunni Ready Player One. Sorrento er í sögunni valdamikill forstjóri og spilar hlutverk vonda kallsins.
„Hann lét okkur lesa Ready Player One þegar við gerðum eitthvað af okkur. Sönn saga.“
Hún segir loks að áform Musk um að nema land á Mars sé ekkert meira en enn eitt sölutrixið. Það þurfi ekki annað en að nota Google til að sjá að það sé ómögulegt að koma upp nýlendu á Mars án þess að skapa þar lífvænleg skilyrði, en slíkt verkefni væri gríðarlega krefjandi. Auðveldara væri að bæta skilyrðin aftur á jörðinni.