Bílar frá Teslu eru búnir öflugu myndavélakerfi og náðist andlit mannsins á mynd þegar hann gekk fram hjá bílnum, Teslu X, og dró bíllykil eftir hliðinni á honum. Talsverðar skemmdir urðu á lakkinu og leið ekki á löngu þar til andlit mannsins var orðið þekkt á netinu eftir að eigandinn birti mynd af honum.
Sonur Bandaríkjaforseta, Donald Trump Jr., deildi til dæmis myndinni á X og vakti færslan talsverða athygli.
Skemmdarvargurinn var handtekinn skömmu síðar og kom í ljós að hann heitir Rafael Hernandez og er 56 ára. Var hann ákærður fyrir skemmdarverk.
Nú hefur lögmaður eigandans lagt fram kröfu um bætur á hendur Rafael og vill hann að maðurinn verði dæmdur til að borga eina milljón dollara í bætur. Vill lögmaðurinn meina að með þessu sé verið að senda skilaboð um að skemmdarverk af þessu tagi verði ekki liðin. Bendir hann á að bíllinn hafi orðið fyrir tjóni og ekki síður tilfinningalíf eigandans.
„Fólk á rétt á því að kaupa hvaða bíl sem það viill kaupa, alveg sama hver á fyrirtækið, og fólk ætti að geta gert það án þess að verða fyrir aðkasti eða skemmdarverkum,“ segir lögmaðurinn, Mejed Nachawati.
Borið hefur á skemmdarverkum á Teslu-bifreiðum í eigu óbreyttra borgara að undanförnu. Eru rökin þau að Elon Musk er einna stærsti hluthafi fyrirtækisins.