Eins og fram hefur komið í fréttum hefur samband Bandaríkjanna og Kanada farið hríðversnandi. Donald Trump forseti Bandaríkjanna hefur sýnt Kanada mikinn fjandskap og komið af stað viðskiptastríði milli landanna með því að beita tollum gegn innfluttum vörum og aðföngum frá landinu. Hann hefur talað opinskátt um að vilja innlima Kanada inn í Bandaríkin. Hefur Trump sagt að Kanada hafi aldrei gert Bandaríkjunum neitt gott. Þetta hafa Kanadamenn tekið óstinnt upp og minna þá á mikla góðvild sem þeir sýndu Bandaríkjamönnum á einum myrkasta degi í sögu lands þeirra, 11. september 2001, en þar gengdu íbúar kanadísks smábæjar lykil hlutverki.
Þennan dag eins og flestum ætti að vera kunnugt var þremur farþegaþotum flogið á annars vegar báða turna World Trade Center í New York og hins vegar varnarmálaráðuneytið í Washington með þeim afleiðingum að á fjórða þúsund manns létust. Árásirnar áttu sér stað á níunda tímanum að morgni, að staðartíma. Í kjölfarið var lofthelgi Bandaríkjanna lokað og öllum flugvélum innan hennar skipað að lenda á næsta flugvelli eða halda til nágrannalandsins í norðri. Þá voru góð ráð dýr fyrir t.d. farþega og áhafnir þeirra flugvéla sem voru komnar langleiðina til Bandaríkjanna, erlendis frá, en ekki komin enn inn í lofthelgi landsins.
Alls tóku kanadískir flugvellir við 238 flugvélum, sem áttu að lenda í Bandaríkjunum, þennan dag en um borð voru alls um tugir þúsunda farþega og áhafnarmeðlima. Einna mest mæddi á flugvellinum í smábænum Gander í Nýfundnalandi og Labrador, austasta héraði Kanada. Alls var 38 flugvélum, sem höfðu verið á leið til áfangastaða í Bandaríkjunum, beint til flugvallarins. Um borð voru um 6.600 áhafnarmeðlimir og farþegar, margir hverjir frá Bandaríkjunum. Óvíst var hvenær lofthelgi Bandaríkjanna yrði opnuð á ný. Staðan var því sú að allt þetta fólk var strandaglópar í bænum. Á þessum tíma bjuggu um 10.000 manns í Gander. Bæjarbúar stóðu þar með frammi fyrir því afar umfangsmikla verkefni að koma þessum mikla fjölda gesta, sem samsvaraði til um 2/3 af íbúafjölda bæjarins, fyrir. Þeir einhentu sér hins vegar af fullum krafti í þetta og samstaðan var mikil um að sýna gestunum sem komnir væru til bæjarins vegna þessara fordæmalausu aðstæðna eins mikla góðvild og mögulegt væri.
Fjöldi bæjarbúa og íbúa í næsta nágrenni buðu fram heimili sín fyrir gestina til að gista í og ýmis konar aðstoð af öðru tagi eins og leggja til fæði og hreinlætisvörur. Fjöldahjálparstöðvar voru opnaðar og bæjarbúar gerðu sitt besta til að hafa ofan af fyrir gestunum. Fór að svo að gestirnir þurftu að gista í bænum í allt að 6 daga og þá höfðu bæjarbúar og gestirnir margir hverjir bundist vináttuböndum.
Það var ekki sjálfsagt mál fyrir svona lítinn bæ að taka á móti svona mörgum og þessi mikla góðvild og hjálpsemi íbúa Gander í garð þeirra sem voru strandaglópar vegna eins versta atburðar í sögu Bandaríkjanna vakti heimsathygli. Um þetta voru skrifaðar bækur, flutt leikrit, gerðar kvikmyndir, heimildamyndir og meira að segja söngleikur.
Kanadamenn hafa rifjað þessa atburði upp að undanförnu vegna fjandskapar bandarískra stjórnvalda í þeirra garð til að minna á að þeir hafi sannarlega reynst vera Bandaríkjunum góðir grannar. Rætt hefur verið um góðsemdina í bæði fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, ekki síst með áherslu á framlag íbúa í Gander. Nú síðast var það gert í kosningamyndbandi Frjálslynda flokksins vegna þingkosninganna í Kanada sem haldnar verða 28. apríl næstkomandi en í myndbandinu eru birtar myndir frá Gander í september 2001. Í myndbandinu er einnig rifjuð upp aðstoð kanadískra slökkviliðsmanna við að slökkva þá miklu skógarelda sem geisuðu í Los Angeles í janúar síðastliðnum og aðstoð Kanadamanna við að bjarga bandarískum sendiráðsstarfsmönnum frá Íran 1979.
Með myndbandinu vill flokkurinn mótmæla þeim orðum Donald Trump sem sýnd eru í upphafi myndbandsins um að það sé svo erfitt að eiga við Kanada sem hafi aldrei gert Bandaríkjunum neitt gott.
Með myndbandinu fylgir stutt setning:
„Góðir nágrannar. Alltaf.“