fbpx
Sunnudagur 30.mars 2025
Pressan

Nærmynd af meintum morðingja sem hefur verið hylltur sem hetja og fordæmdur sem hryðjuverkamaður – Hver er Luigi Mangione?

Pressan
Miðvikudaginn 26. mars 2025 22:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hetja eða hrakmenni? Hvort orðið á við um unga manninn sem er sakaður um að hafa banað forstjóra UnitedHealthCare í desember? Skoðanir á þessu eru skiptar. Hinn 26 ára gamli Luigi Mangione situr nú í gæsluvarðhaldi og er ákærður fyrir bæði morð og hryðjuverk. En sama hvað fólki finnst um sjálft morðið leikur mörgum forvitni á að vita hvernig ungur maður í blóma lífsins, úr góðri fjölskyldu, með afburðargreind og góða menntun endaði sem einn umtalaðasti meinti morðingi Bandaríkjanna.

Rolling Stones freistaði þess að draga upp mynd af manninum sem sungið er um á samfélagsmiðlum sem á sama tíma leggja mikið á sig til að ritskoða umræðuna, enda vekur það ugg í hjörtum margra morði er fagnað sem hetjudáð.

Kominn af gæðafólki

Luigi ólst upp í Towson í Maryland og er yngstur þriggja systkina. Fjölskylda hans var stór og samheldin. Foreldrar hans eru Louis og Kathleen (Lou og Kathy) og systur hans heita MariaSanta og Lucia. Foreldrar hans koma bæði úr stórum fjölskyldum sem voru vel virtar í samfélaginu með sterk tengsl við samfélag Bandaríkjamanna af ítölskum uppruna á svæði Baltimore. Afi hans og amma, Nicholas og Mary Mangione, voru í byggingariðnaðinum þar sem þau auðguðust töluvert. Þau byggðu upp atvinnustarfsemi, hjúkrunarheimili og útvarpsstöð og ráku starfsemina sjálf.

„Þetta er mikið gæðafólk,“ sagði vinur foreldra Luigi í samtali við Rolling Stone. „Þau hafa gert mikið fyrir samfélag sitt og byggðu veldi sitt upp frá grunni. Kapítalismi rennur í æðum þeirra.“

Nicholas var sonur innflytjanda frá Sikileyjum og ólst upp í hverfi Baltimore sem er kallað „Litla Ítalía“. Hann byrjaði feril sinn sem verktaki en gerðist síðar frumkvöðull og það þrátt fyrir að þurfa að sitja undir ásökunum um tengsl við mafíuna bara út af uppruna sínum.

 

Heillandi og nægjusamur dúx

Luigi er greindur og nægjusamur. Þetta birtist strax í æsku hans. Hann nálgaðist leiki með greiningu og vísindalegri aðferðafræði. Eitt sinn átti hann að teikna myndir af draumahúsinu sínu. Vinir hans teiknuðu allir stórar lúxusvillur með sundlaugum og risastórum bílskúrum. Luigi teiknaði lítinn ferkentaðan kassa með fjórum jafnstórum herbergjum. Hann greindi frá þessu í færslu á Reddit þar sem hann sagði: „Þetta var allt sem ég þurfti. Ekkert meira, ekkert minna. Þeim fannst ég skrítinn. Mér þóttu hallirnar þeirra fullar af óþarfa bulli. Ég held að ég hafi alltaf verið mjög upptekinn af skilvirni og hafi aldrei verið mikill efnishyggjumaður.“

Luigi gekk í einkaskóla sem kallast Gilmore. Skólinn er aðeins fyrir drengi og hefur orð á sér fyrir að hafa útskrifað mikið af stjórnmálamönnum, athafnamönnum og íþróttamönnum. Það þótti því töluvert afrek þegar Luigi dúxaði í Gilmore. Þar naut hann engrar forgjafar bara því fjölskylda hans var efnuð – enda komu flestir nemendur úr ríkum fjölskyldum. Hann dúxaði því á eigin verðleikum.

„Luigi var í hópi krakka sem þú bara vissir að ætti eftir að fara í bestu háskólanna og enda með að vinna að brautryðjandi vísindauppgötvunum. En Luigi var sá eini úr þeim hóp sem maður gat spjallað við á almennum nótum. Þegar hann byrjaði að tala gaf hann frá sér mikinn sjarma,“ sagði James, fyrrum bekkjabróðir Luigi en tók þó fram að líklega hafi Luigi langað til að eiga sér meira félagslíf en hann gerði á námstímanum. Luigi var nefnilega alltaf að læra. Hann eyddi frítíma sínum í vísindastofu skólans þar sem hann var að smíða vélmenni. Hann mætti í skólann löngu áður en kennsludagurinn byrjaði svo hann gæti undirbúið sig.

„Luigi var alltaf að eltast við fullkomnun, því það var hans persónueinkenni að vera klár,“ segir fyrrum kennari Luigi, Steve og nefndi sem dæmi að ef Luigi fékk 9,8 á prófi varð hann fúll á meðan aðrir nemendur voru í skýjunum með 9,2.

Gervigreind og verkir

Luigi hafði eins mikinn áhuga á tölvuleikjum sem kveikti áhuga hans á forritun, gervigreind og þeim áhrifum sem tæknin hefur á líf fólks og samfélagið. Árið 2016 ávarpaði hann samnemendur sínar á samkomu í skólanum:

„Í dag ætla ég að ræða við ykkur um framtíðina, um allt frá gervigreind með sjálfsvitund yfir í ódauðaleika mannsins. Líklega munuð þið hugsa að þetta sé áhugavert en afskrifa þetta þó sem vísindaskáldskap, eða kannski eigið þið eftir að hugsa að ég sé galinn. En ég er viss um að mér muni ekki bara takast að sannfæra ykkur um geðheilsu mína heldur líka um að framtíð okkar, næstu hundruð árin, verði ólík öllu sem mannkynið hefur hingað til þekkt“

Luigi sagði tækniframfarir þýða að framtíðin beri margt spennandi í skauti sér, en á sama tíma muni maðurinn standa frammi fyrir nýjum ógnum. Það væri þó deginum ljósara að heimurinn væri að stökkbreytast.

Að loknu skyldunámi lá leið Luigi í Pennsylvaníuháskóla þar sem hann helgaði sig stærðfræði og gervigreind. Framtíðin virtist björt hjá unga manninum. Hann gekk í bræðralag í háskólanum, stundaði félagslífið af jafnmiklum metnaði og námið, en skyndilega fór að halla undan fæti. Luigi var rétt skriðinn á þrítugsaldurinn þegar hann greindist með alvarleg álagsmeiðsl í baki.

Verkirnir voru hamlandi og til að bæta gráu ofan á svart hafði hann stundað djammið af metnaði og fór í kjölfarið að glíma við erfið meltingarvandamál. Hann taldi eins ljóst að hann hefði verið bitinn af mítli eftir að hann tók eftir einkennum sem minntu helst á Lyme-sjúkdóminn skæða. Hann átti þarna erfitt með einbeitingu, minnið varð glopótt og hann átti erfitt með að sitja lengi við lærdóm út af bakverkjum.

Vinsæll og vel liðinn

Hann bar þó harm sinn í hljóði því einn vinur hans orðaði það svo við fjölmiðla að Luigi hafi verið svo viðkunnanlegur að jafnvel í dag, eftir að Luigi var handtekinn og kærður fyrir kaldrifjað morð af yfirlögðu ráði, treysti hann unga manninum.

„Ég myndi senda systur mína, eða vinkonur, á stefnumót með honum. Þekkjandi hann, þá treysti ég honum algjörlega. Jafnvel þó að ég vissi það sem ég veit í dag og jafnvel þó hann væri 100 prósent sekur, þá myndi ég samt upplifa mig öruggan ef við værum einir saman í herbergi.“

Eftir að hafa lokið öðru ári sínu í háskólanámi hélt Luigi í Stanford-háskóla þar sem hann var leiðbeinandi á sumarnámskeiði fyrir gagnfræðaskólanema sem vildu læra um gervigreind. Þar var hann svo vinsæll að nemendur hans stofnuðu sérstakan spjallhóp á netinu bara til að tala um þennan heillandi leiðbeinanda.

Þrátt fyrir heilsubrest tókst Luigi að útskrifast í maí árið 2022 og ekki bara það heldur lauk hann bæði bakkalár- og meistaragráðu á aðeins fjórum árum og útskrifaðist með ágætiseinkunn.

Að námi loknu ákvað Luigi að huga betur að heilsunni. Hann flutti í hitann á Hawaii þar sem hann stundaði brimbretti og starfaði við gagnaverkfræði. Hann fór ferða sinna ýmist fótgangandi eða á hjóli. Skömmu eftir flutninginn lenti hann í slysi á brimbretti sem gerði bakverkina verri en áður. Nú var hann með viðvarandi taugaverk sem leiddi niður hægri fótinn á honum. Þetta var honum mikið áfall.

Hann stofnaði bókaklúbb á Hawaii til að rækta tengsl við vinina sem hann hafði eignast þar. „Hann var svo hugulsamur og góðhjartaður, alveg sama hvað hann gerði““ sagði einn félagi hans úr bókaklúbbnum.

Í febrúar 2023 sagði Luigi starfi sínu lausu. Hann sagði að þó að launin væru góð þá væri vinnan sjálf drepleiðinleg. Þarna ákvað hann að fara í skurðaðgerð til að freista þess að losna við bakverkina. Samkvæmt færslum hans á samfélagsmiðlum gekk það eftir. Hann losnaði við verkina.

Hafði áhyggjur af skautun samfélagsins

Þá víkur sögunni að aðdraganda morðsins. Fyrir ári síðan ákvað Luigi að fara í bakpokaferðalag og skoða Asíu og samtímis dró hann verulega úr samskiptum sínum við vini og fjölskyldu. Þess í stað fór hann að vera meira virkur á netinu og setja sig í samband við rithöfunda og áhrifavalda sem hann leit upp til. Fjölmiðlar hafa rætt við þá aðila sem Luigi talaði við á þessum tíma. Allir greindu frá yfirveguðum og málefnalegum samræðum við unga manninn. Luigi hafði áhyggjur af pólitískum öfgum, algrími á samfélagsmiðlum og verri félags- og samskiptafærni Bandaríkjamanna.

Hann gagnrýndi woke-hugsun, dyggðaskreytingu og öfgafólk. Hann vildi raunverulegar lausnir sem byggja á rökhugsun og vísindum. Hann var á móti aðgerðum sem byggja á fjölbreytni, jafnrétti og inngildingu, studdi tjáningarfrelsi en var á móti neyslumenningu.

Luigi taldi ljóst að tæknirisarnir væru viljandi að valda skautun í samfélaginu og umræðunni til að hámarka hagnað. Fjölmiðlar væru engu skárri og væru viljandi að vekja reiði og hræðslu. Bandaríkjamenn væru fastir í bergmálshellum og hefðu misst getuna til að taka upplýstar ákvarðanir.

Það hræddi hann að sjá fólk aftengt veruleikanum, með nefið ofan í símunum.

Luigi einangraði sig enn meira sumarið 2024 og fóru ástvinir hans að óttast um afdrif hans. Um miðjan nóvember hafði móðir hans samband við lögreglu og bað um að lýst yrði eftir syni hennar sem hún hafði ekki heyrt frá síðan í júlí. Þetta átti stóran þátt í að Luigi varð seinna handtekinn.

Myndin sem kom lögreglu á sporið

Forstjóri UnitedHealthCare, Brian Thompson, var skotinn til bana fyrir utan hótel í Manhattan þann 4. desember. Skotmaðurinn komst undan. Lögregla birti fljótlega myndir úr eftirlitsmyndavélum og óskaði eftir aðstoð almennings. Myndirnar voru flestar óskýrar, en ein skar sig úr hópnum. Þar mátti nefnilega sjá þann grunaða brosa.

Lögreglumaðurinn Michael Horan í San Francisco sá bros-myndina og hugsaði strax að þessi mynd ætti eftir að koma upp um skotmanninn. Hann vissi ekki hversu rétt hann hafði fyrir sér. Þennan sama dag bað samstarfsfélagi Horan hann um að skoða gögn um mannshvarf sem hann var að rannsaka. „Þetta er furðulegt mál,“ sagði samstarfsmaðurinn og lýsti því að vel menntaður ungur drengur hefði horfið sporlaust um sumarið. Horan ákvað að hjálpa og hellti sér yfir samfélagsmiðla Luigi. Fljótlega lagði hann saman tvo og tvo. Þarna sá hann sama brosið og sömu augabrúnir og á brosmyndinni.

Hann hringdi í alríkislögreglumenn sem voru að rannsaka morðið á Thompsons. Nokkrum dögum síðar var Luigi handtekinn á McDonalds veitingastað í Pennsylvaníu. Að sögn lögreglu fundu þeir í fórum hans fölsuð skilríki, þrívíddarprentað skotvopn, skot, stílabók og loks stutt bréf sem var stílað á alríkislögregluna.

„Til alríkislögreglumanna, ég ætla að hafa þetta stutt því ég virði þau verk sem þið sinnið fyrir þjóð okkar. Tæknin mín er frekar skotheld því ég er verkfræðingur svo það er ekki mikið að finna þar. Ég afsaka þá erfiðleika og þjáningu sem ég kann að hafa valdið en þetta þurfti að gerast. Þessar afættur áttu þetta skilið.“

Luigi rakti svo í bréfinu hvernig fyrirtæki misnota Bandaríkjamenn og græða á því, sérstaklega í gegnum sjúkratryggingar. Þetta sé stórt vandamál í samfélaginu og ekki dugi annað en að horfast í augu við það með ofbeldisfullri hreinskilni.

Undarleg viðbrögð yfirvalda

Vinir og vandamenn hans eiga erfitt með að trúa því að hann sé sekur. Fjölskylda hans fer nú með veggjum og nágrannar segja þyngra en tárum taki að nafn þeirra og arfleifð hafi verið vanhelguð með þessum hætti.

Einn vinur segir málið hafa bent á stöðuna í samfélaginu og stöðu ungra karlmanna. „Hversu mörgum bakmeiðslum erum við frá ofbeldisverkum? Ef við vissum hversu umfangsmikill þessi vandi er þá held ég að niðurstaðan yrði hrottaleg.“

Eftir að Luigi var handtekinn var ljóst að yfirvöld ætluðu að senda skýr skilaboð. Það væri ekki í boði að beita þá ríku og valdamiklu ofbeldi. Þegar Luigi var framseldur til New York tók borgarstjórinn sjálfur á móti honum og hafði boðið blaðamönnum að vera viðstaddir sem og ljósmyndurum borgarinnar. Margir segja að þetta hafi verið fordæmalaus uppákoma.

Skjáskot

Mikill stuðningur

Samsæriskenningar ganga um að hagsmunaaðilar auðkýfinga í Bandaríkjunum hafi beitt stjórnvöld og lögreglu þrýstingi. Luigi og morðið höfðu vakið harða gagnrýni á misskiptingu auðs og ósanngirni sjúkratryggingakerfisins. Það þyrfti að kæfa þessi mótmæli hið fyrsta áður en fólk fer að fá einhverjar hugmyndir.

Sumir halda að Luigi hafi verið gerður að blóraböggli fyrir hinn raunverulega morðingja. Sjálfur segist Luigi saklaus, en hann hefur meðal annars verið ákærður fyrir hryðjuverk.

Ekki hefur enn tekist að kæfa þá öldu sem fór af stað þegar Thompson var myrtur. Vísanir til Luigi má finna víða og eiga samfélagsmiðlar fullt í fangi með að ritskoðun. Lög hafa verið samin þar sem Luigi er hylltur sem hetja fólksins. Luigi birtist á veggjakroti, inn á almenningssalernum, á stuttermabolum og áfram mætti lengi telja.

Sjálfur segist Luigi orðlaus yfir þeim stuðningi sem hann hefur fengið. Milljónir hafa safnast til að aðstoða hann með varnir í málinu og hann hefur fengið svo mörg bréf send í fangelsið að hann segist ómögulega geta svarað þeim öllum. McDonalds staðurinn þar sem Luigi var handtekinn var tekinn af lífi á netinu og starfsmönnum hótað og ákæruvaldið segir að stuðningsmenn unga mannsins hafi jafnvel reynt að ógna vitnum í málinu.

Luigi hefur enn ekki verið sakfelldur en hann er nú þegar orðin goðsögn. Hann hefur vakið ótta meðal stjórnenda fyrirtækja í sjúkratryggingum sem nú hafa varið milljónum í öryggisráðstafanir. Samfélagið skiptist í fylkingar. Þeir sem líta á Luigi sem hetju og þeir sem hrylla sig á því að fólk sé að fagna morði.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Þjófur gleypti rándýra eyrnalokka

Þjófur gleypti rándýra eyrnalokka
Pressan
Fyrir 2 dögum

Evrópubúum er ráðlagt að búa sig undir það versta og koma sér upp neyðarbirgðum – Þetta er gott að hafa í töskunni

Evrópubúum er ráðlagt að búa sig undir það versta og koma sér upp neyðarbirgðum – Þetta er gott að hafa í töskunni
Pressan
Fyrir 3 dögum

Frakkar ætla að enduropna kjarnorkuflugvöll og staðsetja orustuþotur með ofurhljóðfrá kjarnorkuflugskeyti þar

Frakkar ætla að enduropna kjarnorkuflugvöll og staðsetja orustuþotur með ofurhljóðfrá kjarnorkuflugskeyti þar
Pressan
Fyrir 3 dögum

Brúðarkjóll Melania Trump falur fyrir 6 milljónir

Brúðarkjóll Melania Trump falur fyrir 6 milljónir
Pressan
Fyrir 3 dögum

Musk skýrir frá milljónasvindli hjá hinu opinbera – 9 mánaða barn fékk að sögn 13 milljónir í lán

Musk skýrir frá milljónasvindli hjá hinu opinbera – 9 mánaða barn fékk að sögn 13 milljónir í lán
Pressan
Fyrir 4 dögum

Af hverju er bjór seldur í sixpack?

Af hverju er bjór seldur í sixpack?