fbpx
Mánudagur 24.mars 2025
Pressan

Tímavélin: Hernaðarástand í Kanada – „Fylgstu bara með mér“

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 22. mars 2025 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Að undanförnu hafa samskipti Kanada við hið volduga nágrannaríki, Bandaríkin, farið töluvert versnandi. Donald Trump forseti Bandaríkjanna hefur talað opinskátt um að best væri að Kanada yrði innlimað inn í Bandaríkin. Kanadamenn eru mjög háðir viðskiptum við þessa nágranna sína en Trump telur að í þeim viðskiptum halli verulega á Bandaríkjamenn og hefur aukið efnahagslegan þrýsting á nágrannaríkið með til að mynda tollum. Kanadísk stjórnvöld hafa leitast eftir því að efla viðskipti við önnur ríki og hafa einnig hafið vinnu við að efla varnarviðbúnað í landinu til dæmis með auknum vopnakaupum. Það bendir þó ekkert til að Trump sé að huga að hernaðaraðgerðum gegn Kanada en óöryggið þeim megin landamæra ríkjanna hefur tvímælalaust vaxið. Fyrir um hálfri öld var einingu og tilveru Kanada í óbreyttri mynd einnig ógnað en sú ógn kom innan frá. Stjórnvöld hikuðu þá ekki við að beita fullri hörku og úr varð sannkallað hernaðarástand.

Kanada er eins og Bandaríkin sambandsríki. Landinu er skipt í tíu héruð ( e. provinces) sem öll njóta vissrar sjálfsstjórnar. Öll héruðin hafa eigið þing og eigið framkvæmdarvald. Nyrsta hluta Kanada er síðan skipt í þrjú landsvæði ( e. territories) sem öll hafa sitt eigið þing en njóta þó minni sjálfsstjórnar en héruðin. Þing alls landsins situr síðan í höfuðborginni Ottawa og með framkvæmdarvald fyrir allt landið fer ríkisstjórn Kanada en í landinu er þingbundin konungsstjórn.

Núningurinn

Eitt af þessum héruðum er Québec. Franskir landnemar komu fyrst til landsvæðisins sem nú er Québec á 16.öld. Svæðið varð frönsk nýlenda og ráðandi tungumál varð franska.

Á 18. öld hertóku hins vegar Bretar landsvæðið sem nú er Québec og önnur yfirráðasvæði Frakka í Norður-Ameríku.

Til að gera langa sögu stutta þá unnu Bretar markvisst að því að gera öll fyrrum landsvæði Frakka, þar með talið það sem nú er Québec, að sínum með því að ensk menning myndi ráða ríkjum og að enska myndi alfarið taka við af frönsku á svæðinu sem og öllum öðrum landsvæðum sem urðu síðar að Kanada. Á 19. öld varð umrætt landsvæði að héraðinu Québec. Formlegt samband varð síðan til milli þess og fleiri landsvæða, sem aðallega voru byggð af afkomendum landnema af breskum uppruna með ensku sem móðurmál, sem urðu að héruðum og sambandsríkið Kanada varð formlega til.

Þeir íbúar Québec sem voru af frönskum ættum áttu margir hverjir bágt með að sætta sig við þróunina og töldu Breta og síðar Kanadamenn af breskum ættum sýna sér yfirgang. Með tímanum fóru þeir að krefjast þess að héraðið yrði aðskilið frá Kanada og yrði alfarið sjálfstætt. Slíkar kröfur hafa verið uppi allar götur síðan. Segja má að í deilunum um stöðu Québec kristallist sá núningur sem hefur oft á tíðum einkennt kanadíska sögu. Núningur á milli annars vegar Kanadamanna af frönskum ættum, með frönsku sem móðurmál, og hins vegar Kanadamanna af breskum ættum, með ensku sem móðurmál.

Háværari

Eftir því sem leið á 20. öld urðu kröfur um sjálfstæði Québec háværari og litlu virtist breyta þótt meiri gaumur væri gefinn að bættum réttindum íbúa af frönskum uppruna og að þær áherslur sem höfðu áður verið uppi, um að enskan myndi ýta frönsku alfarið út alls staðar í Kanada, hefðu á endanum verið lagðar til hliðar.

Þegar komið var fram á 7. áratug 20. aldar var kominn töluverður kraftur í sjálfstæðishreyfingu Québec. Hún fór að taka á sig ofbeldisfyllri mynd og sósíalískar hugmyndir fóru í auknum mæli að hafa áhrif á hreyfinguna.

Málin þróuðust þannig að herskáustu baráttumennirnir fyrir sjálfstæði Québec komust að þeirri niðurstöðu að það væri ekki annað hægt til að ná markmiðinu en að beita ofbeldi. Árið 1963 stofnuðu þrír menn, Georges Schoeters, Raymond Villeneuve og Gabriel Hudon Frelsisfylkingingu Québec ( fr. Front de libération du Québec). Fleiri gengu til liðs við fylkinguna og yfirlýst markmið hennar var að koma á, með ofbeldisfullum aðferðum, sjálfstæðu Québec sem yrði stjórnað með kommúníska hugmyndafræði að leiðarljósi. Næstu árin herjaði fylkingin á Québec með fjölda árása og hélt nánast héraðinu í heljargreipum.

Fáni Frelsisfylkingar Québec.

Látið sverfa til stáls

Á árunum 1963-1970 framdi Frelsisfylking Québec á annað hundrað árásir með sprengjum eða annars konar vopnum víðs vegar um héraðið, þó einkum í stærstu borg þess Montréal. Í þessum árásum létust átta manns og fjöldi manna særðist. Til að fjármagna árásirnar frömdu meðlimir ýmis konar glæpi ekki síst bankarán. Árásirnar beindust m.a. að lögreglunni, hernum og verslunum. Stærstu sprengjuárásina gerðu samtökin á kauphöllina í Montréal 1969 en í henni særðust 27 manns.

Ummerki eftir árásina á kauphöllina.

Í október 1970 ákváðu samtökin hins vegar að ganga enn lengra. Þann 5. október rændu liðsmenn Frelsisfylkingarinnar breskum diplómata, James Cross, frá heimili hans í Montréal.

James Cross. Mynd: Skjáskot/Youtube

Kröfðust samtökin lausnargjalds fyrir Cross og að meðlimir þeirra sem voru í fangelsi yrðu látnir lausir sem og að stefnuyfirlýsing samtakanna yrði lesin í kanadíska ríkisútvarpinu.

Stefnuyfirlýsingin var þó lesin í fjölmiðlum í Québec en ekki í sjálfu ríkisútvarpinu.

Fimm dögum síðar rændu aðrir liðsmenn Frelsisfylkingar Québec Pierre Laporte atvinnumálaráðherra héraðsins, frá heimili hans í borginni Saint-Lambert, og höfðu uppi sams konar kröfur og vegna ránsins á James Cross.

Daginn eftir var lesið í kanadíska ríkisútvarpinu bréf sem sagt var frá Laporte og stílað á forsætisráðherra Québec, Robert Bourassa. Líklegt virðist þó að mannræningjarnir hafi verið höfundar bréfsins en í því voru þeir sagðir fara vel með Laporte og Bourassa var hvattur til að semja við þá um lausn hans.

Pierre Laporte árið 1965. Mynd: Wikimedia Commons.

Ástandið – „Fylgstu bara með mér“

Ljóst var að staða mála í Québec þótti orðin ískyggileg og yfirvöld í héraðinu virtust eiga sífellt erfiðara með að ráða við ástandið. Nokkuð var um stuðning við málstað og aðferðir Frelsisfylkingarinnar í héraðinu en það var þó alls ekki algilt.

Farið var að bera á umræðum um að yfirvöld í Québec réðu ekki ein við ástandið og að kanadísk stjórnvöld yrðu að grípa inn í. Hermenn úr kanadíska hernum voru sendir til að verja opinberar byggingar í höfuðborginni Ottawa, sem er í Ontario næsta héraði vestan við Québec, en farið var að ræða í fullri alvöru að senda yrði hermenn til Québec þar sem Frelsisfylkingin væri orðin slík ógn við réttkjörin yfirvöld í héraðinu og staðan væri orðin svo alvarleg að yfirvöld þyrftu að setja einfaldlega herlög og skerða réttindi borgaranna á meðan tökum væri náð á ástandinu.

Þann 12. október hófu yfirvöld í Quebec samningaviðræður við Frelsisfylkinguna um lausn James Cross og Pierre Laporte.

Daginn eftir ræddi kandadíska ríkissjónvarpið stöðu mála við Pierre Trudeau forsætisráðherra Kanada og þá staðreynd að hermenn væru á götum höfuðborgarinnar. Hann þótti ekki endilega líklegastur til að grípa til þess að senda herinn til Québec og koma á herlögum en hann var fæddur og uppalinn í héraðinu og lagði á sínum stjórnmálaferli mikla áherslu á að standa vörð um mannréttindi.

Í viðtalinu fór Trudeau ekkert í grafgötur með að ekki ætti að líða það að vopnaðir hópar kæmust upp með að kúga lýðræðislega kjörin stjórnvöld, með mannránum og annars konar ofbeldi, til að láta að vilja sínum. Þegar kom að spurningum um að senda hermenn út á göturnar sagði Trudeau að það væri mikilvægara að koma á lögum og reglu heldur en að hlífa tilfinningum þeirra sem vildu ekki sjá hermenn á götum kandadískra borga. Grípa yrði til allra nauðsynlegra ráða til að verjast þeim sem ætluðu að komast til valda með ofbeldisfullum aðferðum.

Aðspurður um hversu langt hann væri tilbúinn að ganga í þeim efnum að skerða réttindi og frelsi borgaranna til að koma á lögum og reglu svaraði Trudeau með orðum sem urðu nær samstundis fleyg í kanadísku þjóðfélagi:

„Fylgstu bara með mér (e. Just watch me).“

Skjáskot úr viðtalinu sögufræga við Pierre Trudeau.

Herlög

Forsætisráðherra Kanada var því tilbúinn til að beita fullri hörku og her landsins til að ná tökum á ástandinu í Québec og vinna endanlega bug á Frelsisfylkingunni.

Þann 15. október fóru samningaviðræður um lausn James Cross og Pierre Laporte út um þúfur og í kjölfarið óskuðu yfirvöld í Québec formlega eftir aðstoð kandadíska hersins. Flokkur aðskilnaðarsinna, í Québec, á kanadíska þinginu studdi beiðnina.

Sama dag komu nokkur þúsund námsmenn saman á fjöldafundi í Montréal til stuðnings frelsisfylkingu Québec. Orðræðan á fundinum fyllti marga Kanadamenn miklum óhug en ræðumenn töluðu með opinskáum hætti um að myrða þingmenn. Raunverulegur möguleiki var talinn á því að vopnuð uppreisn væri í aðsigi í Québec.

Daginn eftir óskuðu yfirvöld í héraðinu eftir því að stjórnvöld í Ottawa myndu veita þeim neyðarúrræði meðal annars völd til að handtaka fólk án dómsúrskurðar. Þennan sama daga tilkynnti Pierre Trudeau að herlög væru hér með gengin í gildi, í samræmi við heimildir í kandadískum lögum en þeim ákvæðum hafði aðeins verið beitt í fyrri og seinni heimsstyrjöldinni. Það þýddi að lögreglan hafði víðtækari heimildir en venjulega til að hafa eftirlit með borgurunum, heimilt var að handtaka fólk án dómsúrskurðar og án þess að það yrði fært fyrir dómara innan vissra tímamarka en að öðrum kosti sleppt. Húsleitarheimildir voru einnig óþarfar samkvæmt lögunum. Hermenn kanadíska hersins voru strax sendir til Québec og sáust þennan sama dag á götum Montréal og annarra helstu borga héraðsins. Sannkallað hernaðarástand var skollið á.

Hertrukkur á götum Montréal. Skjáskot/Youtube.

Viðsnúningur

Þessi hörðu viðbrögð kanadískra stjórnvalda voru gagnrýnd af mörgum sem sögðu allt of langt gengið að skerða réttindi og frelsi fólks með þessum hætti. Fjöldi manna var handtekinn en samkvæmt könnunum studdi meirihluta þjóðarinnar að herlög hefðu verið sett á.

Þann 17. október, daginn eftir að herlögin tóku gildi, tilkynnti Frelsisfylkingin að Pierre Laporte hefði verið tekinn af lífi og vísaði á lík hans.

Eftir það varð í raun viðsnúningur á þessu ógnarástandi. Miklum meirihluta Kanadamanna, þar með talið íbúum Québec, ofbauð og sá stuðningur við Frelsisfylkinguna sem hafði þó verið til staðar fór hratt minnkandi.

Þann 6. nóvember fannst fylgsni þeirra liðsmanna fylkingarinnar sem höfðu rænt Laporte og myrt hann. Aðeins einn þeirra náðist en hinir þrír fundust í lok desember og þá var í raun þetta ástand sem staðið hafði síðan um miðjan október á enda.

Þann 3. desember höfðu náðst samningar um lausn James Cross, sem hafði verið 62 daga í gíslingu, eftir að loks tókst að finna út hvar honum var haldið. Þeim liðsmönnum Frelsisfylkingarinnar sem rændu honum var leyft að yfirgefa landið og fengu þeir skjól á Kúbu.

Í upphafi árs 1971 yfirgáfu allir hermenn Québec og herlögin voru ekki lengur í gildi. Aldrei kom til þess á meðan þetta ástand, sem síðar var kallað Októberkrísan, varaði að hermenn þyrftu að beita vopnum sínum en þeirra meiginhlutverk var að gæta opinberra bygginga og háttsettra einstaklinga svo lögreglan gæti einbeitt sér að því að hafa hendur í hári liðsmanna Frelsisfylkingarinnar.

Breyting

Á næstu árum lognaðist fylkingin út af enda höfðu flestir liðsmenn hennar annaðhvort verið fangelsaðir eða flúið land.

Eftir að þetta neyðarástand endaði var á næstu árum unnið enn frekar að því að sjá til þess að bæta réttindi íbúa Québec af frönskum uppruna og sjá enn betur til þess að franska yrði jafn rétthá ensku í kanadísku þjóðfélagi. Það er þó ríkur vilji meðal margra íbúa Québec að franska verði í fyrirrúmi í héraðinu.

Eftir að Októberkrísunni lauk hvarf endanlega allt fylgi við að berjast með ofbeldisfullum leiðum fyrir því að Québec segði skilið við Kanada og síðan þá hafa fylgismenn þess almennt lagt áherslu á að beita sér fyrir því með lýðræðislegum leiðum.

Tvisvar hafa íbúar héraðsins hafnað því í atkvæðagreiðslu að slíta sig frá Kanada, árin 1980 og 1995 en í seinna skiptið var það fellt mjög naumlega.

Samkvæmt könnunum er drjúgur meirihluti íbúa héraðsins í dag á móti aðskilnaði. Hugmyndir um aðskilnað hafa þróast og einkennast í dag af því að mæla fyrir aðskilnaði en með náinni samvinnu við Kanada, t.d. með því að halda kanadíska dollarnum.

Framtíðin

Stjórnmálaflokkurinn Bloc Québécois sem hefur aðskilnað á stefnuskránni og býður aðeins fram í héraðinu í kosningum til kanadíska þingsins fékk 32 af 78 þingsætum Québec á þinginu í síðustu þingkosningum, 2021, og samkvæmt skoðanakönnunum myndi flokkur aðskilnaðarsinna fá flest atkvæði í kosningum til þings héraðsins ef kosið væri í dag. Kosið verður til þings Kanada á þessu ári og þings Québec á næsta ári og það skýrist því fljótlega hversu öflugir aðskilnaðarsinnar verða þegar atkvæðin hafa verið talin.

Samþykkt var 2021 á þingi Québec og í kjölfarið á þingi Kanada að breyta lögum og stjórnarskrá héraðsins þannig að franska verði í auknum mæli ráðandi tungumál í héraðinu, fram yfir ensku. Það getur líklega haft bæði áhrif til að sefa vilja íbúanna til aðskilnaðar og til að efla aðskilnaðarsinna enn frekar. Ólíklegt virðist þó að aftur skapist hernaðarástand vegna hugmynda, deilna og átaka um framtíð Québec eins og gerðist í október 1970.

Hvort að Kanadamenn þurfi að óttast mögulegt hernaðarástand vegna ásælni Donald Trump er hins vegar annað mál.

Nánar er hægt að lesa um Októberkrísuna hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 23 klukkutímum

Gluggasæti geta verið hættulegustu sætin í flugvélum

Gluggasæti geta verið hættulegustu sætin í flugvélum
Pressan
Í gær

Móðir buffaði 14 ára dreng sem hefur lagt son hennar í einelti

Móðir buffaði 14 ára dreng sem hefur lagt son hennar í einelti
Pressan
Í gær

Sérfræðingur segir að þessi klæðnaður geti verið hættulegur ef neyðarástand kemur upp í flugvél

Sérfræðingur segir að þessi klæðnaður geti verið hættulegur ef neyðarástand kemur upp í flugvél
Pressan
Í gær

Þessar tetegundir virka best gegn kvefi

Þessar tetegundir virka best gegn kvefi
Pressan
Fyrir 3 dögum

Varað við ferðalögum til Bandaríkjanna eftir hrottalega reynslu ferðamanna

Varað við ferðalögum til Bandaríkjanna eftir hrottalega reynslu ferðamanna
Pressan
Fyrir 3 dögum

„Við bundum enda á ömurlegt líf hans“ sagði Trump

„Við bundum enda á ömurlegt líf hans“ sagði Trump