Myrelis Casique López steig fram í viðtali við BBC í gærkvöldi en sonur hennar virðist hafa verið í hópi eitt hundrað fanga sem fluttir voru frá Bandaríkjunum til El Salvador.
Greint var frá því í febrúar að Marco Rubio hefði samið við yfirvöld í landinu um að þau tækju við hættulegum glæpamönnum frá Bandaríkjunum.
Sjá einnig: Það vill enginn dvelja í þessu fangelsi
Myrelis, sem er búsett í Venesúela og þarlendur ríkisborgari, líkt og sonur hennar, segir í viðtalinu við BBC að hún hafi vitað að til stæði að vísa syni hennar úr landi.
Segir hún að sonurinn, hinn 24 ára gamli Francisco Jose Garcia Casique, hafi haft samband við hana og sagt að hann væri á leiðinni heim daginn eftir þar sem hann hafði dvalið ólöglega í Bandaríkjunum. Stóðu þau bæðií þeirri trú að hann yrði fluttur til Caracas. Annað kom þó á daginn og skilaði Francisco sér ekki heim á tilsettum tíma.
Það var svo á dögunum að Myrelis sat fyrir framan sjónvarpið og horfði á frétt um CESCO-fangelsið að hún sá syni sínum bregða fyrir á myndefninu. Var hann þar snoðaður og umkringdur meðlimum glæpaklíkunnar Tren de Aragua.
Bandarísk yfirvöld hafa skilgreint klíkuna sem hryðjuverkasamtök og hefur fjölda meintra meðlima hennar verið vísað frá landi síðustu vikurnar.
„Þetta er hann! Þetta er hann!,“ segist Myrelis hafa sagt þegar hún fréttina og var sonur hennar og bróðir Francisco því sammála. Telja þau engan vafa leika á því að hann hafi verið á myndefninu. „Eðlishvöt móður bregst aldrei. Ég þekkti hann. Hann er með eins húðflúr á handleggnum og ég sá að þetta var hann,“ segir hún.
Myrels heldur því fram fullum fetum að sonur hennar sé ekki í neinni glæpaklíku. „Hann er hárgreiðslumaður,“ segir hún og telur að bandarísk yfirvöld hafi litið á húðflúrin sem hann er með og talið að vegna þeirra væri hann meðlimur glæpaklíku.
Francisco yfirgaf Venesúela árið 2019 í leit að betra lífi og settist að í Perú þar sem hann bjó í nokkur ár og starfaði sem hárgreiðslumaður. Í september 2023 hélt hann til Bandaríkjanna en var ekki með dvalarleyfi og því ólöglegur í landinu. Lögregla handtók hann þann 6. febrúar síðastliðinn og var honum komið fyrir í varðhaldi uns hann var sendur úr landi.
Móðir hans hefur eðli málsins samkvæmt miklar áhyggjur af honum.
„Hann er núna í einhverju svartholi þar sem enginn virðist geta bjargað honum,“ segir hún.