Francisco þessi er talinn vera einn af leiðtogum glæpaklíkunnar alræmdu MS-13 og mun hann hafa verið í forsvari fyrir samtökin í Bandaríkjunum, Mexíkó og El Salvador.
Sjá einnig: Sagan á bak við MS-13:Hættulegasta götugengi heims sem hlífir engum
Sem forsvarsmaður samtakanna er Francisco grunaður um að hafa fyrirskipað ýmis óhæfuverk, þar á meðal morð, bæði gegn borgurum og meðlimum annarra gengja. Samtökin hafa einnig verið áberandi á markaði með ólögleg fíkniefni.
Lögreglan í Mexíokó handtók Francisco í Veracruz í vikunni og var hann í kjölfarið fluttur í fangelsi í Mexíkóborg. Gera má ráð fyrir að hann verði svo framseldur til Bandaríkjanna þar sem hans bíður þungur dómur.
Ríkisstjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hefur flokkað MS-13 sem hryðjuverkasamtök ásamt nokkrum öðrum glæpagengjum. Í frétt CNN kemur fram að þessi flokkun geri Bandaríkjastjórn kleift að gera loftárásir á bækistöðvar samtakanna, til dæmis í Mexíkó.
MS-13 samtökin eiga rætur sínar að rekja til áranna í kjölfar borgarastyrjaldarinnar í El Salvador á níunda áratug liðinnar aldar. Fjölmargir íbúar El Salvador töldu hag sínum betur borgið utan landsteinanna og fluttust til Bandaríkjanna. Margir settust að í Los Angeles og nágrenni borgarinnar og var félagsskapurinn, MS-13, stofnaður til að vernda salvadorska innflytjendur fyrir þeim gengjum sem fyrir voru á svæðinu.
Starfsemi samtakanna blés út á níunda og tíunda áratug liðinnar aldar og nú eru meðlimir frá mörgum ríkjum; El Salvador, Bandaríkjunum, Hondúras, Gvatemala og Mexíkó þar á meðal og eru samtökin með starfsemi í öllum þessum löndum.