Stór eggjakrísa er í Bandaríkjunum. Þar er mikill skortur á eggjum því rúmlega 50 milljónum varphænum hefur verið slátrað síðan í október vegna fuglaflensunnar. Þar með er stórt skarð hoggið í varphænustofninni.
AgriWatch segir að nýlega hafi bandarísk yfirvöld leitað hófanna hjá Dönum varðandi kaup á eggjum.
Jørgen Nyberg Larsen, hjá Danske Æg, sagði að bandarísk yfirvöld hafi leitað til fyrirtækisins varðandi kaup á eggjum og hann viti að einnig hafi hófanna verið leitað hjá Hollendingum, Svíum og Finnum.
En það eru ákveðin vandamál við að selja egg til Bandaríkjanna því samkvæmt kröfu yfirvalda þar verður að þvo egg áður en þau fara á markað. Það má ekki gera í ESB.
Donald Trump ræddi um eggjakrísuna þegar hann ávarpaði bandaríska þingið nýlega og kenndi fyrirrennara sínum, Joe Biden, um.
Eggjaskorturinn þýðir að verðið hefur rokið upp úr öllu valdi. Í ársbyrjun 2024 kostuðu 12 egg 2,5 dollara, það svarar til um 340 króna. Í dag kostar sami bakki um 8 dollara, það svarar til 1.100 króna.