Upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, Karoline Leavitt, vakti töluverða athygli á dögunum þegar hún reyndi að halda því fram á blaðamannafundi að tollar væru í raun skattaafsláttur fyrir Bandaríkjamenn. Þegar blaðamenn reyndu að leiðrétta hana fauk í upplýsingafulltrúann.
Leavitt var að svara fyrir þá fjölmörgu og miklu tolla sem Trump hefur verið að leggja á innflutning annarra þjóða, þar með talið frá Kanada, Mexíkó, Kína, Evrópusambandinu og Ástralíu. Tollarnir hafa valdið miklu fjaðrafoki í Bandaríkjunum og urðu til þess að hlutabréfamarkaðurinn hefur verið í frjálsu falli undanfarna daga. Margir óttast að efnahagurinn stefni í samdrátt.
Leavitt sagði í svari til blaðamannsins Josh Boak hjá AP-fréttastofunni: „Hann [Trump] er reyndar ekki að innleiða skattahækkanir. Tollar eru skattahækkun á erlend ríki sem hafa verið að svindla á okkur. Tollar eru í raun skattalækkun fyrir Bandaríkjamenn. Forsetinn er mikill talsmaður skattalækkana.“
Blaðamaðurinn spurði Leavitt hvort hún hefði sjálf borgað tolla. Blaðamaðurinn hafi gert það og geti vottað fyrir að tollar séu lagðir á bandaríska innflytjendur en ekki erlendu fyrirtækin.
Leavitt hélt þá áfram: „Á endanum verður það svo, þegar við erum með sanngjörn milliríkjaviðskipti í jafnvægi sem Bandaríkjamenn hafa ekki séð áratugum saman eins og ég sagði áðan, þá verður hagnaðurinn til hér, laun munu hækka og þjóð okkar verður auðug aftur.“
Hún skammaði svo blaðamann fyrir að hafa í raun móðgað vitsmuni hennar með því að gefa til kynna að hún viti ekkert um hagfræði og þær ákvarðanir sem forsetinn hefur tekið um efnahaginn.
„Mér finnst móðgandi að þú sért að reyna að prófa þekkingu mína á hagfræði og þeim ákvörðunum sem þessi forseti hefur tekið. Ég sé núna eftir því að hafa leyft AP að spyrja spurninga.“
Fjölmiðlakonan Nicolle Wallace hjá MSNBC hefur í kjölfarið gagnrýnt Leavitt fyrir að það sé alveg kýrskýrt að tollar séu engin skattalækkun. Hún spilaði orðaskipti Leavitt og blaðamannsins og kallaði þau sorgleg.
„Hún er annaðhvort sorlega illa upplýst eða hún er að ljúga,“ sagði Wallace og bætti við að enginn hagfræðingur, hvort sem það er stuðningsmaður Trump eða ekki, myndi stíga fram opinberlega og lýsa því yfir að tollar séu skattalækkun.
Með Wallace sat fjölmiðlakonan Annie Lowry frá The Atlantic og hún tók undir með kollega sínum um eðli tolla.
„Tollar eru skattur sem bandarískir neytendur greiða, þeir hækka verð fyrir bandarísk fyrirtæki og bandarísk heimili. Og bandarísk fyrirtæki og heimili eru nú þegar að glíma við dýrtíð. Þú sérð það á verði eggja. Þú sérð það í húsnæðisverðinu. Þú sérð það í verði fyrir daggæslu barna. Ríkisstjórn Trump lofaði að takast á við verðlagið en þetta gerir illt verra.“
Eins hefur Leavitt verið höfð að háði fyrir að tala um hversu frábær Trump væri fyrir efnahaginn. Hún sagði að tollastefna Trump væri tilefni fyrir bjartsýni og að hlutabréfamarkaðurinn eigi eftir að jafna sig fljótt. Fox-fréttastofan sýndi frá blaðamannafundinum og á meðan Leavitt hélt þessu fram mátti sjá, í beinni, hvernig hlutabréfavísitalan Dow Jones hrundi í rauntíma.
„Við erum á umbreytingartíma frá þeirri efnahagslegu matröð sem við þoldum undir fyrri forseta sem vissi ekkert hvað hann væri að gera og hefur aldrei unnið á almennum vinnumarkaði, yfir í gullöld bandarískrar framleiðslu undir handleiðslu viðskiptamannsins og samningamannsins Donald J. Trump forseta sem er að innleiða formúlu sem við vitum að virkar.“