ABC News segir að þegar lögreglan kom á vettvangi hafi hún fundið tvö börn, sem sátu í bíl sem var lagt í innkeyrslunni. Karl og kona komu út úr húsinu og kynntu sig sem „samstarfsaðila fasteignasalans“. Lögreglumennirnir áttuðu sig fljótlega á að eitthvað var bogið við þetta allt saman.
Þegar lögreglumennirnir byrjuð að spyrja þau spurninga framvísaði maðurinn ökuskírteini sem reyndist tilheyra látnum manni. Konan sagðist aldrei hafa átt skilríki. Lögreglumennirnir tóku því fingraför af þeim báðum og þá fóru hjólin að snúast.
Konan reyndist heita Rabia Khalid og vera fertug. Hún var eftirlýst fyrir mannrán sem átti sér stað fyrir sjö árum. Fjallað hefur verið um það mál í Netflixþáttaröðinni „Unsolved Mysteries“.
Málið snýst um ránið á sjö ára syni hennar, Abdul Aziz Khan, sem hvarf ásamt móður sinni 2018. Hafði Rabia verið eftirlýst síðan fyrir mannrán.
Annað barnið í bílnum reyndist vera Abdul, sem er nú orðinn 14 ára.
Rabia og faðir Abdul, Abdul Khan, skildu 2014 og háðu harðvítuga deilu um forræði yfir honum. Sú deila var ekki útkljáð þegar hann hvarf 2018.
Rabia og maðurinn sem hún var með, Elliot Blake Bourgeois, voru handtekin, grunuð um mannrán, skjalafals og fleiri brot.
Lögreglan hefur ekki skýrt frá hvaða barn var með Abdul í bílnum en þeim hefur báðum verið komið í umsjá barnaverndaryfirvalda.