Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagst vonast til þess að vopnahléið verði samþykkt á næstu dögum en rússnesk yfirvöld hafa ekki gefið neitt út um það opinberlega hvort þeir muni samþykkja eða hafna tillögunni.
„Það verður erfitt fyrir Pútín að samþykkja vopnahlé á þessum tímapunkti. Hann er í sterkri stöðu núna því Rússum hefur gengið vel á vígvellinum síðustu daga,“ segir heimildarmaður Reuters og vísar í fréttir af því að Úkraínuher hafi verið hrakinn að stóru leyti frá Kúrsk-héraði sem Úkraínumenn hafa haft á sínu valdi síðan í ágúst á síðasta ári.
Rússar eru sagðir ráða yfir tæplega einum fimmta af því landsvæði sem tilheyrt hefur Úkraínu og hefur þeim tekist að færa sig smátt og smátt vestar á bóginn.
„Ef gera á samkomulag ætti það að vera á okkar forsendum, en ekki forsendum Bandaríkjanna,“ segir Konstantin Kosachev, þingmaður á rússneska þinginu.