Sky News segir að pilturinn hafi verið vopnaður haglabyssu og með skotfæri meðferðis þegar hann gekk um borð í vélina. Farþegar og áhafnarmeðlimir brugðust snarlega við og yfirbuguðu hann.
Pilturinn er sagður hafa komist inn á flugvöllinn í gegnum gat á öryggisgirðingunni sem umlykur hann. Hann er sagður hafa verið klæddur í fatnað svipuðum þeim sem flugvallarstarfsmenn klæðast.
„Í aðstæðum sem þessum, þá hugsar maður ekki, maður bregst við og gerir eitthvað. Þú verður bara að gera það sem þú þarft að gera,“ sagði Barry Clark, einn þeirra sem yfirbugaði piltinn, í samtali við ABC News Australia.
Lögreglan fann tvær töskur og bíl sem pilturinn tengdist.
Hann verður ákærður fyrir flugrán, að hafa stefnt farþegum og áhöfn í hættu, að hafa tekið hættulega hluti með um borð í flugvél, að hafa ógnað öryggi flugvélarinnar, sprengjugabb, vörslu skotvopns og umferðarlagabrot.