Á óveðurskvöldi í nóvember 1980 hvarf Granger á dularfullan hátt og stóðu ástvinir hans eftir og höfðu ekki hugmynd um hvað hafði orðið um hann.
Granger, sem var 32 ára, hafði hætt snemma í skóla og byrjað að vinna á vélaverkstæði í bænum Duncan í Kanada þar sem hann bjó. Hann hafði náttúrulega hæfileika til að gera við vélar og tæki og þótti bráðgreindur. Það sem mörgum þótti þó undarlegt við hann var að hann hélt því fram að hann væri í sambandi við vitsmunaverur frá öðrum plánetum.
Systir hans sagði Vice að síðustu mánuðina fyrir hvarf hans hafi hann tekið upp á því að taka sýru nokkrum sinnum á dag. Á þessum tíma smíðaði hann stórt líkan af geimfari úr hlutum sem hann fann á ruslahaugunum. Síðan hvarf hann bara algjörlega fyrirvaralaust.
Hann sendi fjölskyldu sinni dularfull skilaboð þar sem hann sagðist vera að fara í 42 mánaða ferð í geimfari með vitsmunaverum frá annarri plánetu. Hann sagði að hann hefði dreymt þetta ítrekað og hefði verið lofað að hann færi í langa geimferð með þessum geimverum en myndi síðan snúa aftur heim.
Í kveðjubréfinu stóð: „Kæru pabbi og mamma, ég er á leið um borð í geimfar því endurteknir draumar lofuðu mér 42 mánaða geimferð um víðáttur alheimsins, síðan kem ég heim. Ég skil allar eigur mínar eftir fyrir ykkur því ég hef ekki lengur neina þörf fyrir þær. Vinsamlegast fylgið leiðbeiningunum í erfðaskrá minni. Ástarkveðjur, Granger.“
Mirror segir að það hafi ekki verið fyrr en sex árum síðar sem ummerki um Granger fundust. Þá fundu skógarhöggsmenn svæði sem bar þess merki að sprenging hefði orðið og þar var skemmt ökutæki. Þetta var nærri sveitabænum þar sem fjölskylda Granger bjó.
Lögreglan rannsakaði málið og komst að því að ökutækið var Datsun pallbifreið Granger. Brot úr mannabeinum og klæðisbútar fundust einnig á vettvangi. Hins vegar var ekki hægt að færa á það óyggjandi sönnur að þetta væru beinbrot úr Granger eða fatnaður hans.
Dánardómstjóri komst að þeirri niðurstöðu að Granger hefði tæst í sundur í sprengingu sem varð í bílnum og taldi að hann hafi verið með dínamít í bílnum þegar þetta gerðist. Hins vegar var ekki hægt að skera úr um hvort sprengingin varð fyrir slysni eða hvort ásetningur bjó að baki. Granger var oft með dínamít í bílnum sínum því það var oft notað á þessu svæði til að fjarlægja trjástubba. Hann var alvanur því að nota dínamít.
Hvarf hans og bréfið, sem hann skildi eftir fyrir fjölskyldu sína, eru enn ráðgáta og engar sannfærandi skýringar hafa komið fram um af hverju hann hvarf.