Um var að ræða níu einstaklinga, fjórar konur og fimm karla, á aldrinum 19 til 30 ára. Fólkið var í fríi í Oaxaca þegar skyndilega hætti að heyrast frá þeim þann 27. febrúar síðastliðinn.
Í frétt Mail Online kemur fram að aðkoman hafi verið skelfileg en búið var að hluta líkin í sundur og koma þeim fyrir í skotti bifreiðarinnar. Þá var búið að höggva hendurnar af fólkinu og fundust þær í poka skammt frá.
Enginn hefur verið handtekinn í tengslum við rannsókn málsins og segjast yfirvöld ekki vita hvað varð til þess að ungmennin voru numin á brott.
Í frétt Mail Online er vísað í umfjöllun NVINoticias þar sem fram kemur að grunur leiki á að ungmennin hafi verið í slagtogi með glæpagengi sem kallast Los Zacapoaxtlas.
Morð eru mjög tíð í Mexíkó og tengjast þau oftar en ekki átökum glæpagengja. Minna hefur þó verið um slík átök í Oaxaca-héraði sem notið hefur töluverðra vinsælda meðal ferðamanna.