Mikið hefur verið rætt um hvort kínverska gervigreindin Deepseek myndi verða til þess að stóru vestrænu tæknifyrirtækin haldi að sér höndum og eyði ekki miklu fjármagni í gervigreind. En það virðist ekki vera raunin hjá Meta sem er sagt ætla að eyða háum fjárhæðum í gagnaver fyrir gervigreind.
The Information skýrir frá þessu og hefur þetta eftir ónafngreindum heimildarmönnum sem segja að Meta eigi nú í viðræðum ýmsa aðila um þetta sem og ríkin Louisiana, Wyoming og Texas en þar er sagt að til greina komi að reisa gagnaverið.
Talsmaður Meta vísaði þessu á bug og sagði að um „hreinar getgátur“ sé að ræða og vísaði til þess að Mark Zuckerberg, forstjóri Meta, hafi áður sagt að Meta hyggist eyða sem svarar til um 9.100 milljörðum íslenskra króna á þessu ári í innviði fyrir gervigreind.
Reiknað er með að Microsoft og Amazon muni eyða miklu í gervigreind, þrátt fyrir tilkomu Deepseek. Hefur verið rætt um sem svarar til um 10.000 milljarða íslenskra króna hjá hvoru fyrirtæki.