Leikarinn heimsþekkti Bill Murray hefur opinberað það að honum þyki ekki mikið til hins heimsfræga blaðamanna Bob Woodward koma. Vísar Murray þar einkum til 40 ára gamallar bókar um leikarann John Belushi, sem lést af völdum of stórs skammts af eitulyfjum, en hann og Murray voru góðir vinir. Segist Murray efast stórlega um sannleiksgildi umfjöllunar Woodward um Watergate-hneykslið sem sá síðarnefndi öðlaðist heimsfrægð fyrir en hún varð til þess að þáverandi Bandaríkjaforseti Richard Nixon hrökklaðist úr embætti.
Þetta kemur fram í umfjöllun New York Post.
Murray og Woodward hittust um liðna helgi í Kennedy-menningarmiðstöðinni í Washington þar sem sýnd var heimildarmynd um Katharine Graham sem lengi var útgefandi dagblaðsins Washington Post sem Woodward starfaði lengst af fyrir. Eins og flestir vita vann Woodward ásamt samstarfsmanni sínum Carl Bernestein afar ítarlega umfjöllun um Watergate-málið fyrir blaðið á áttunda áratug síðustu aldar. Í kjölfar umfjöllunarinnar hrökklaðist Richard Nixon frá völdum og blaðamennirnir öðluðust heimsfrægð.
Á sýningunni um helgina deildu Murray og Woodward um bók þess síðarnefnda Wired frá 1984 um leikarann John Belushi. Belushi var 33 ára gamall þegar hann lést árið 1982 eftir að hafa tekið inn of stóran skammt af eiturlyfjum. Belushi og Murray voru góðir vinir en þeir höfðu starfað saman í gamanþáttunum Saturday Night Live.
Blaðamaðurinn Ben Terris varð vitni að samtali Murray og Woodward og sagði spennuna hafa verið áþreifanlega.
Samtalið kom í kjölfar viðtals í hlaðvarpi Joe Rogan við Murray. Hann tjáði Rogan að hefði lesið fimm blaðsíður af bókinni og þá þegar komist að þeirr niðurstöðu að það væri ekkert að marka hana og þá hlyti það sama að eiga við um umfjöllunina um Watergate.
Hann segir að bókin um Belushi varpi upp mynd af þessum vini hans sem eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Woodward hafi byggt bókina á samtölum við fólk sem hafi ekki þekkt Belushi vel og ekki verið hluti af hans innsta hring.
Kallaði Murray bókina grimmúðlega og glæpsamlega.
Murray sagði Belushi hafa verið ljúfmenni og hafi ekki haft þann mann að geyma sem lýst sé í bók Woodward. Ítreka ber þó að Murray las aðeins fimm blaðsíður af bókinni.
Vildi Murray meina að hvati Woodward að skrifunum hafi líklega verið öfund vegna þess að hann og Belushi hafi verið frá sömu borg, Wheaton í Illinois, en hinn látni leikari hafi verið frægari en stjörnublaðamaðurinn.