The Independent segir að fjölskylda stúlkunnar hafi ekki vitað af því að hún væri farin að veipa og drekka kratom drykki. Það var ekki fyrr en skóli stúlkunnar tilkynnti þeim þetta að þau komust að þessu.
Amma stúlkunnar sagði að hegðun hennar hafi byrjað að breytast þegar hún byrjaði í fjórða bekk. Hún hafi verið góður námsmaður en hafi tekið sífellt minni þátt í heimilisstörfum og oft farið að heiman undir því yfirskini að hún væri að fara að læra með vinum sínum.
Þegar hún fór að eiga erfitt með andardrátt, var máttfarin og kastaði mikið upp var hún lögð inn á sjúkrahús. Eftir rannsóknir sögðu læknar að lungu hennar væru svo illa farin vegna veipsins að hún þyrfti að vera í öndunarvél.
Þrír aðrir nemendur úr skóla hennar, úr fimmta, sjötta og áttunda bekk, voru einnig lagðir inn á sjúkrahús vegna öndunarörðugleika og annarra einkenna sem tengjast veipi og neyslu Kratom.