Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar þar sem stuðst var við gögn úr COVID-19 Social Study sem vísindamenn við University College London (UCL) gerðu.
Stuðst var við gögn frá rúmlega 49.000 fullorðnum á tímabilinu frá mars 2020 til mars 2022.
Meðal niðurstaðna rannsóknarinnar er að fólki líður almennt „best“ þegar það vaknar en „verst“ um miðnætti.
Dr Feifei Bu, hjá aðferðafræðideild UCL, segir í vísindaritinu BMJ Mental Health, að niðurstöðurnar bendi til að andleg heilsa og vellíðan sé best á morgnana en verst um miðnætti. „Almennt séð, virðast hlutirnir betri á morgnana,“ skrifaði hann.
Þátttakendurnir voru meðal annars spurðir: „Hvernig leið þér undanfarna viku?“, „Hversu ánægð(ur) ertu með líf þitt?“ og „Að hvaða marki finnst þér að það sem þú ert að gera í lífinu sé þess virði?“
Tekið var tillit til þátta eins og aldurs, heilsufars og hvort fólk væri í vinnu. Sky News segir að niðurstöðurnar sýni að fólk sé hamingjusamast, sáttast við lífið og það sem það gerir á mánudögum og föstudögum en síst ánægt á sunnudögum.
Hamingjan mældist einnig meiri á þriðjudögum en sunnudögum.
Ekkert kom fram sem benti til að munur væri á einmanaleika á milli vikudaga.
Vísindamennirnir segja að breytingar á andlegri líðan og vellíðan yfir daginn megi hugsanlega rekja til breytinga á andlegu hliðinni í tengslum við líkamsklukkuna. Til dæmis sé magn kortisóls, sem er hormón sem stýrir skapinu, hvatningu og ótta í hámarki skömmu eftir að fólk vaknar en í lágmarki í kringum háttatíma.
Hvað varðar muninn á skapinu á milli virka daga og helga, þá telja vísindamennirnir að það megi hugsanlega rekja til breytinga á daglegum verkefnum.