Í síma Olegs voru nefnilega myndbönd sem sýndu hann misnota sex ára gamla stjúpdóttur Matrosov kynferðislega. Oleg og Matrosov voru einskonar trúnaðarvinir; Oleg dvaldi oft á heimili vinar síns og passaði stundum dóttur hans.
Kvöld eitt í september 2021 sátu félagarnir að sumbli og það var þá sem Matrosov sá myndböndin. Honum var eðlilega brugðið og í fréttum rússneskra fjölmiðla á sínum tíma kom fram að hann hafi sett sig í samband við lögreglu og tilkynnt brotin.
Oleg á að hafa farið í felur á meðan lögregla leitaði hans og á sama tíma óx reiðin innra með Matrosov. Það var svo um viku síðar sem lík Olegs fannst í grunnri gröf í skóglendi.
Hvað nákvæmlega gerðist kom aldrei almennilega í ljós en það sem þó liggur fyrir er að Matrosov var á undan lögreglunni að ná til Olegs. Talið er að Matrosov hafi farið með fyrrverandi vin sinn út í skóg og þvingað hann til að grafa sína eigin gröf. Því næst hafi komið til átaka á milli þeirra og þau endað þannig að Oleg veitti sjálfum sér stunguáverka sem drógu hann til dauða.
Matrosov var í fyrstu grunaður um morð að yfirlögðu ráði en rannsókn lögreglu leiddi í ljós að Oleg hafi verið sá sem hélt á hnífnum. Mun Matrosov hafa sagt í yfirheyrslum að hann hafi ætlað að hræða Oleg til að gefa sig fram við lögreglu: Annað hvort myndi hann gefa sig fram eða enda líf sitt í gröfinni sem hann gróf sjálfur.
Málið vakti sem fyrr segir mikla athygli og var meðal annars settur á fót undirskriftalisti þar sem bæjarbúar hvöttu saksóknara til að falla frá öllum málarekstri gegn Matrosov í ljósi þeirra alvarlegu brota sem Oleg hafði gerst sekur um. Lögregla fann nefnilega fleiri myndbönd á síma hans sem sýndu hann misnota ungar stúlkur.
Matrosov var sem fyrr segir dæmdur í 18 mánaða fangelsi vegna málsins en honum var sleppt úr haldi eftir að hafa setið inni í 12 mánuði.