Samsæriskenning um Donald Trump Bandaríkjaforseta hefur vakið mikla athygli í vikunni, eftir að færsla birtist á Facebook. Höfundur færslunnar heitir Alnur Mussayev og er fyrrverandi njósnari sovíesku leyniþjónustunnar, KGB.
Mussayev birti færslu á fimmtudaginn þar sem hann sagðist árið 1987 hafa starfað fyrir deild innan KGB sem var falið að sannfæra athafnamenn frá kapítölskum þjóðum um að gerast njósnarar fyrir Rússland.
„Það var á því ári sem við fengum til liðs við okkur fertugan athafnamann frá Bandaríkjunum, Donald Trump, sem fékk dulnefnið „Krasnov“.“
Mussayev segir að öllum upplýsingum um þetta hafi verið eytt úr opinberum skrám. Það sé aðeins einn af nánustu samstarfsmönnum Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta sem hefur aðgang að þessum upplýsingum í dag.
Þessi fyllyrðing Mussayev vakti lukku meðal vinstri sinnaðra áhugamanna um samsæri sem voru fljótir að benda á að Trump heimsótti Rússland í fyrsta sinn árið 1987, þegar Sovétríkin hétu enn og voru. Trump segist hafa farið í þessa ferð því hann hafði áhuga á að byggja hótel í Moskvu.
Nokkrir erlendir miðlar hafa fjallað um færsluna.
Times Now News rekur að Mussayev starfaði við öryggismál bæði í Sovétríkjunum og svo síðar Kazakhstan. Ferill hans hófst árið 1979 og Mussayev starfaði meðal annars við gagnnjósnir í Írak á árunum 1980-1986 og vann sig síðar upp metorðastigann í Rússlandi, vann sér meðal annars inn tvær heiðursorður og var sæmdur orðu rauðu stjörnunnar.
Eftir fall Sovétríkjanna starfaði hann við öryggisráð Kazakhstan en lenti svo upp á kant við þáverandi forsetann, Nursultan Nazarbayev, og flúði þá til Austurríkis þar sem hann sakaði ríkisstjórn Kazakhstan um gífurlega spillingu. Hann var í kjölfarið, að sér fjarstöddum, sakfelldur fyrir ýmsa glæpi.
Árið 2015 var hann sakborningur í svokölluðu Nurbank-máli, einu flóknasta sakamáli sem hefur verið til rannsóknar í Austurríki. Málið tengdist Nurbank-banka. Tveimur yfirmönnum bankans var rænt árið 2007, þeir pyntaðir og loks myrtir. Áður en réttarhöldin hófust svipti diplómatinn og sakborningurinn Rakhat Mukhtaruli Aliyev sig lífi. Mussayev var sýknaður af öllum sakarliðum.
Daily Record rekur að fyrir nokkrum árum kom út skýrsla þar sem fram kom að árið 1985 sendi KGB starfsmönnum sínum leiðbeiningar um hvernig þeir ættu að finna, og fá til liðs við sig, mikilvæga leikmenn frá Vesturlöndum. Einkum var njósnurum falið að finna aðila sem væru áberandi í atvinnulífinu.
Mussayev gaf á fimmtudaginn til kynna að Trump hefði verið einn þeirra sem létu slag standa.
Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem samsæriskenningar fara á kreik um meint tengsl Trump og Rússlands. Trump hefur alla tíð þvertekið fyrir það að vera hliðhollur Rússum eða að eiga í samstarfi við Pútín.
Pólitískir andstæðingar hans hafa þó ítrekað gripið þennan bolta á lofti og lýst yfir áhyggjum af nánu sambandi hans við Pútín, sérstaklega á fyrra kjörtímabili hans í embætti forseta. Anthony Scaramucci, sem starfaði stuttlega sem samskiptastjóri Hvíta hússins árið 2017, hellti olíu á samsæriseldinn í hlaðvarpinu The Rest is Politics. Þar sagði Scaramucci að samband Trump við Pútín hafi gjarnan valdið æðstu embættismönnum hans heilabrotum.
„Ég held að hann hafi dularfullt tak á forsetanum,“ sagði Scaramucci en fór ekki nánar í hverju þetta tak ætti að felast.
Trump hefur nú svo gott sem snúið baki við Úkraínu sem hann sakaði á dögunum um að bera ábyrgð á innrás Rússa. Kyiv Post tók sig því til í dag og fjallaði um færslu Mussayev. Miðillinn gengur þó lengra og rekur að fyrrum njósnari bresku leyniþjónustunnar, Christopher Steele, hafi ritað skýrslu árið 2017 fyrir hönd aðila sem eru á móti bandaríska Repúblikanaflokknum. Þar sé því meðal annars haldið fram að rússnesk stjórnvöld hafi gögn undir höndum sem gætu gert út af við orðspor Trump. Þetta séu gögn sem varða heimsóknir forsetans til Rússlands í gegnum tíðina, upplýsingar um samskipti hans við vændiskonur sem og upplýsingar um kynferðislegan afbrigðileika.
Stuðningsmenn Trump gáfu lítið fyrir skýrsluna, sérstaklega þar sem hún byggir fyrst og fremst á frásögnum nafnlausra heimildarmanna.
Mussayev skrifaði líka færslu sumarið 2018 þar sem hann gaf til kynna að Trump væri að ganga erinda Rússlands og að Pútín hefði komið Trump til valda.
Kyiv Post rekur að fleiri fyrrum njósnarar KGB hafi sakað Trump um að vera rússneskur erindreki. Yuri Shvets hafi haldið því fram í bókinni American Kompromat sem kom út árið 2021 að Trump hafi gengið til liðs við Rússland á níunda áratug síðustu aldar.
„Donald Trump var þjálfaður sem rússneskur njósnari og reyndist svo viljugur til að bergmála áróður gegn Vesturlöndunum að það var slegið upp veislu í Moskvu,“ sagði Shvets við The Guardian árið 2021. Shvets rakti að árið 1977 hafi Trump gengið að eiga fyrstu eiginkonu sína, tékknesku fyrirsætuna Ivana Zelnickova. Þá fyrst vakti hann athygli Rússa. Frá þessum tíma var Trump undir nálarauganu. Trump og Ivana ferðuðust svo til Rússlands árið 1987, en þar átti hann í samskiptum við KGB sem stakk að honum að íhuga feril í stjórnmálum. KGB hafi þó aldrei órað fyrir því að hann yrði síðar forseti.
Shvets sagði að Trump væri fullkomið skotmark fyrir KGB. Hann væri sjálfhverfur og hégómagjarn og því auðvelt að sannfæra hann. Síðan héldu Rússar áfram að rækta þessi tengsl næstu 40 árin, í gegnum viðskiptaferilinn og svo alla leið inn í Hvíta húsið.
Rétt er að geta þess að hér er verið að fjalla um samsæriskenningu sem hefur helst verið tekin upp hjá jaðarmiðlum eða miðli eins og Kyiv Post sem segja mætti að eigi nú harma að hefna eftir að Trump sneri baki við Úkraínu. Lesendur hafi það í huga. Það er þó áhugavert að velta þessu fyrir sér og við þetta má bæta að notendur Reddit hafa kvartað undan því að færslur þeirra um málið hafi verið fjarlægðar og eins birti miðillinn DailyBeast frétt um málið en eyddi svo út án þess að gefa á því nokkra skýringu, en afrit fréttarinnar má enn finna hér. Frétt má þá enn finna hjá the Mirror.
Enn má þó finna nokkrar virkar umræður á Reddit þar sem netverjar hafa grafiið upp fleiri gamlar fréttir um meint tengsl Trump við Rússland. Til dæmis þegar blaðamaðurinn Craig Unger ræddi við Vox árið 2019 og sagðist sannfærður um að Trump væri að ganga hagsmuna Rússlands og hefði verið tengdur rússnesku mafíunni frá árinu 1984.