Fulltrúar Bandaríkjanna og Rússa hittust á fundi í Sádi-Arabíu í gær þar sem umræðuefnið var Úkraínustríðið og hvaða leiðir væru færar til að binda endi á það. Úkraínumönnum var ekki boðið sæti við borðið og ekki heldur fulltrúum annarra Evrópuríkja.
Á fundi sínum í morgun sagði Zelensky að Trump byggi í heimi einhvers konar upplýsingaóreiðu sem væri búin til af yfirvöldum í Rússlandi.
Zelensky sagði að hann gæti ekki með nokkru móti sætt sig við að þurfa að „selja landið sitt“ í skiptum fyrir stuðning Bandaríkjanna. Vill Trump að aðgangur að sjaldgæfum jarðefnum, til dæmis lithium og titaníum, verði skilyrði fyrir frekari aðstoð.
Hefur Trump nefnt töluna 500 milljarðar Bandaríkjadala en Zelensky segir af og frá að svo mikill stuðningur hafi komið frá Bandaríkjunum. Hann segir að kostnaðurinn við stríðsreksturinn sé 320 milljarðar dollara og þar af hafi 120 milljarðar komið frá úkraínskum skattgreiðendum. Bandaríkjamenn hafi látið 67 milljarða dollara af hendi rakna sem hann er mjög þakklátur fyrir.
„Það eru ekki 500 milljarðar dollarar – það er ekki hægt að taka slíkt alvarlega,“ sagði hann. „Ég er að vernda Úkraínu, ég get ekki selt það, ég get ekki selt landið okkar.“