The Independent segir að ráðuneyti meginlandsmála, það er ráðuneytið sem fer með málefni er varða Kína, ætli nú að grípa til aðgerða gegn þeim Taívönum sem eru með skilríki bæði frá Taívan og Kína.
Liu Shyh-fang, innanríkisráðherra, sagði að nú þegar hafi yfirvöld vitneskju um nokkur fyrirtæki sem hjálpi Taívönum við að sækja um kínversk skilríki.
Málið komst í hámæli eftir að tveir taívanskir áhrifavaldar birtu myndbönd þar sem sést hvernig kommúnistastjórnin í Pekin er að lokka Taívana til að sækja um kínversk skilríki. Þetta gerir kommúnistastjórnin til að reyna að hafa áhrif á almenningsálitið á Taívan sér í hag.
Kommúnistastjórnin lítur á Taívan sem hluta af Kína og hefur ekki útilokað að hervaldi verði beitt til að ná völdum í eyríkinu. Taívanar vilja hins vegar flestir ekki hafa neitt með Kína að gera og kjósa frekar að búa í lýðræðisríkinu sínu.
Að minnsta kosti 4.000 Taívanar hafa sótt um kínversk skilríki í strandborginni Xiamen í Fujian héraði. Um helmingur þeirra gerði þetta án þess að skila inn taívönsku skilríkjunum sínum eða ferðaheimildum sem þeir þurfa til að geta ferðast til Kína.