Erlendir fjölmiðlar hafa fjallað um málið undanfarna daga.
Pilturinn sem um ræðir hét Davi Nunes Moreira og lést hann á sjúkrahúsi í Brasilíu síðastliðinn fimmtudag. Grunur leikur á að um hafi verið að ræða einhvers áskorun á netinu sem drengurinn féllst á að framkvæma.
Pilturinn er sagður hafa þjáðst af uppköstum og sárum verkjum í fætinum eftir uppátæki sitt. Hann sagði föður sínum að hann hefði meitt sig en þegar ástand hans versnaði leiddi hann föður sinn og lækna í allan sannleikann um hvað gerst hafði. Var hann lagður inn á sjúkrahús þar sem hann lést nokkrum dögum síðar.
Krufning á eftir að fara fram til að úrskurða um dánarorsök en Luis Fernando D. Relvast, sérfræðilæknir við Hospital Santa Marcelina, sagði við brasilíska fjölmiðla að mögulega hefði myndast stífla í æð, loft komið inn í æðina eða hann látist vegna ofnæmisviðbragða.
Þá þykir ekki útilokað að eiturefni af einhverju tagi hafi að lokum dregið hann til dauða.