fbpx
Miðvikudagur 19.febrúar 2025
Pressan

16 ára stúlka hvarf sporlaust eftir að hafa komist að sannleikanum um dauða móður sinnar

Pressan
Laugardaginn 15. febrúar 2025 22:00

Ruth Wilson hvarf 27. nóvember 1995.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 27. nóvember næstkomandi verða liðin 30 ár frá hvarfi hinnar 16 ára gömlu Ruth Wilson. Um er að ræða eitt umtalaðasta mannshvarf Bretlandseyja en ekkert hefur spurst til Ruth í öll þessi ár. Daily Mail ræddi í vikunni við æskuvinkonu Ruth, Catherine Mair, sem rifjaði upp það sem fór þeim á milli skömmu áður en Ruth hvarf.

Catherine, sem var nýorðin 17 ára, flutti frá heimabæ þeirra, Betchworth í Surrey, til Sheffield skömmu fyrir hvarfið og segir Catherine að Ruth hafi gjarnan viljað koma með henni þangað. „Ég sagði henni að um leið og ég væri búin að koma mér fyrir myndi ég láta hana vita og hún gæti þá komið.“

Kaldur og blautur mánudagur

Ruth sást síðast á köldum og blautum mánudegi í nóvember árið 1995, en þann dag hafði Ruth fengið leigubílstjóra til að skutla sér að frægum útsýnisstað á svæðinu sem ber nafnið Box Hill. Rifjaði bílstjórinn síðar upp í viðtölum við lögreglu að Ruth hafi verið óvenju illa klædd miðað við veðrið þennan dag.

„Ég vissi að hún var ekki hamingjusöm heima hjá sér,“ rifjar Catherine upp í viðtalinu við Daily Mail og bætir við að það sé ekki endilega óvenjulegt þegar um er að ræða 16 ára unglingsstúlkur. „En hún vildi virkilega komast burt,“ segir hún.

Ruth var elsta dóttir hjónanna Ian og Nesta Wilson og ólst hún upp í fallegu húsi ásamt yngri systur sinni Jenny. Ruth gekk vel í skóla, hún söng í kór, spilaði á rafmagnsgítar og tók þátt í starfi kirkjunnar í þorpinu. En þrátt fyrir ungan aldur hafði Ruth glímt við ákveðna erfiðleika og sorg, en hún var aðeins þriggja ára gömul þegar móðir hennar lést 33 ára gömul.

Þann 10. desember árið 1982 datt Nesta Wilson niður stiga á heimili fjölskyldunnar og hálsbrotnaði. Það var að minnsta kosti sagan sem Ruth fékk að heyra frá föður sínum, Ian, og nýrri eiginkonu hans, Karen Bowerman, sem gekk Ruth í móðurstað aðeins ári eftir andlát Nestu.

Catherine segir að Ruth hafi verið sannfærð um að hún bæri ábyrgð á dauða móður sinnar. Hún hefði eflaust runnið til á leikföngum sem hún hafði skilið eftir með þeim afleiðingum að hún datt niður stigann og lést. En Ruth var staðráðin í að komast að öllum sannleikanum um dauða móður sinnar og nokkrum mánuðum áður en hún hvarf gerði hún einmitt það.

Stigasagan var lygi

Ruth fór til Lundúna með kærasta sínum snemma í október 1995 og varð sér úti um dánarvottorð móður sinnar. Það sem hún sá á því kom henni í opna skjöldu: Móðir hennar hafði nefnilega alls ekki dottið niður stiga heldur hafði hún svipt sig lífi. Hún hafði hengt sig á heimili fjölskyldunnar og lést svo á sjúkrahúsi ekki löngu eftir að hún fannst.
____

Í þessari frétt er fjallað um þunglyndi og sjálfsvíg. Ef ein­stak­ling­ar glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir er bent á Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa sam­band við Píeta-sam­tök­in sem veita ókeyp­is ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.
____

Catherine segir að á sama tíma og það hafi ef til vill verið skiljanlegt að faðir hennar og stjúpmóðir hafi viljað hlífa henni við þessum upplýsingum hafi Ruth orðið heltekin af örlögum móður sinnar. „Hún var ringluð og byrjaði spyrja ágengra spurninga um móður sína. Hún vildi virkilega komast til botns í því hvað nákvæmlega gerðist,“ segir hún.

Catherine rifjar upp að aðeins tveimur vikum áður en Ruth hvarf hafi þær, ásamt fleiri vinum, gist heima hjá Catherine í tilefni af 17 ára afmæli hennar og þeirri staðreynd að hún var að flytja burt. „Hún var í góðum gír það kvöld,“ rifjar Catherine upp.

Pantaði blóm fyrir stjúpmóður sína

Daginn sem Ruth hvarf átti hún að mæta í skólann og voru faðir hennar og stjúpmóðir farin til vinnu þegar hún átti að fara út. Ruth tjáði systur sinni að hún ætlaði að fara aðeins seinna af stað en venjulega en þær myndu hittast síðar þennan dag.

Ruth virðist hafa verið með annað skipulagt því hún pantaði sér leigubíl á bókasafn bæjarins þar sem hún dvaldi í nokkra tíma. Þar hringdi hún í blómabúð bæjarins og bað starfsmann þar að senda stjúpmóður sinni blómvönd sem átti að afhenda að tveimur dögum liðnum. Því næst gekk hún að Dorking-lestarstöðinni þar sem hún tók leigubíl að Box Hill sem fyrr segir.

Bílstjórinn, sem aldrei hefur verið nefndur á nafn, sagði við lögreglu að hann hafi fylgst með Ruth í baksýnisspeglinum þegar hann ók burt. Það hafi vakið athygli hans að Ruth stóð kyrr úti í rigningunni meðan hún hvarf honum úr augsýn. Síðar þetta sama kvöld tilkynntu Ian og Karen um hvarf Ruth þar sem hún hafði ekki skilað sér heim. Fjölmennt leitarlið var sent þegar af stað en allt kom fyrir ekki.

Catherine segir í samtali við Daily Mail að henni hafi þótt skrýtið að svona umfangsmikil leit hafi farið strax af stað. Það gerist oft að unglingar skili sér ekki tímanlega heim og kveðst hún velta fyrir sér hvað lögregla og foreldrar hennar vissu.

The Times greindi frá því á sínum tíma að lögregla hefði fundið þrjú bréf sem falin voru í runna á Box Hill – eitt hafi verið stílað á föður hennar og annað á stjúpmóður hennar. Lögregla vildi þó aldrei staðfesta þetta eða þá hvert efni bréfanna var.

Mörgum spurningum ósvarað

Hvarf Ruth er enn sveipað mikilli dulúð og velta ýmsir fyrir sér hvers vegna lík hennar hafi ekki fundist – hafi hún á annað borð ætlað að binda endi á líf sitt. Hvers vegna sendi hún blómin til stjúpmóður sinnar og hvað var í bréfunum sem lögregla fann? Þá hefur lögregla sagt að hafi Ruth svipt sig lífi á Box Hill hefði lík hennar fundist.

Loks er þess getið í umfjöllun Mail Online að upplýsingar hafi á sínum tíma borist um að Ruth hafi sést nákvæmlega einu ári eftir hvarfið í bænum Dorking. Á upptökum úr öryggismyndavélum mátti sjá örvinglaða unglingsstúlku og hefur lögregla sagst telja að þarna hafi Ruth verið á ferðinni, þó vitanlega sé ómögulegt að staðfesta það miðað við gæði eftirlitsmyndavéla á þeim tíma.

Catherine segist sjálf ekki vita hverju hún á að trúa. „Ég á erfitt með að trúa því að hún hafi svipt sig lífi en ég á líka erfitt með að trúa því að henni hafi tekist að hefja nýtt líf,“ segir Catherine.

Talsmaður lögreglunnar í Surrey segir að rannsóknin á hvarfi Ruth sé enn opin. Engar nýjar upplýsingar hafi þó komið fram um málið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt