Þetta er tillaga nefndar sem ríkisstjórnin skipaði. The Independent segir að Svíar eigi í erfiðleikum með að finna pláss í fangelsum landsins því svo margir hafi hlotið dóma á undanförnum árum vegna hinnar miklu glæpaöldu sem er í landinu.
Gunnar Strommer, dómsmálaráðherra, sagði á fréttamannafundi að það þurfi að leita nýrra lausna varðandi fangelsismálin. Hann sagði að Svíar eigi nú þegar í viðræðum við önnur ríki um að taka við sænskum föngum.
Orðrómar hafa verið á kreiki um að Norðmenn, Belgar og Danir hafi boðið Svíum pláss í þarlendum fangelsum. Eistar eru einnig sagðir hafa boðið pláss.
Átök glæpagengja og ofbeldisverk þeirra hafa sett mikinn svip á sænskt samfélag síðustu tvo áratugina og hafa Svíar fengið það dapra hlutskipti að vera sú Evrópuþjóð þar sem flestir eru skotnir til bana.
Í kjölfar lagabreytinga, fjölgunar lögreglumanna og aukins fjármagns til lögreglunnar, hefur sænska lögreglan náð betri árangri í baráttunni við glæpagengin og hefur banvænum skotárásum fækkað og fleiri hafa hlotið dóma síðustu tvö árin.
Þetta er auðvitað jákvæð þróun en hún hefur einnig þann ókost að álagið á fangelsi landsins hefur aukist mikið.