Þar eru skýjakljúfar og lúxusverslunarmiðstöðvar, flottar baðstrendur og eyðimörk. Á fáum árum hefur landinu verið breytt úr nánast óþekktu eyðimerkurríki í nútímalega stórborg sem tekur sífelldum breytingum og metin falla hvert á fætur öðru.
Tekist hefur að laða fjölskyldur þangað í frí og unga áhrifavalda. Landið, sem er Dúbaí, hefur markaðssett sig sem einn mest spennandi áfangastaður heims og það hefur skilað ótrúlegum fjölda ferðamanna til landsins og metin hafa fallið hvert á fætur öðru.
En nú bendir ýmislegt til að stífar tilraunir borgarinnar til að selja sig til að laða ferðamenn til sín og nýja efnaða íbúa hafi snúist í höndunum á yfirvöldum.
Má þar nefna að í flestum ríkjum heims fjölgar skráðum ökutækjum um 4% en í Dúbaí er aukningin 10% að sögn Euronews. Þetta hefur haft þau „hliðaráhrif“ að yfirvöld hafa þurft að lengja númeraplöturnar svo hægt sé að koma skráningarnúmerunum fyrir á þeim.
Habib Al Mulla, lögmaður, sagði að stærsta vandamálið sem steðjar að landinu sé að ríkidómurinn og tækifærin til að komast til efna virðist ekki vera aðgengileg fyrir stóran hluta landsmanna sem horfi upp á útlendinga taka borgina yfir.
Hinn mikli ferðamannastraumur hefur gert að verkum að fasteignaverð hefur hækkað mjög mikið þrátt fyrir að nánast daglega séu nýjar byggingaáætlanir kynntar til sögunnar.
Þetta hefur neikvæð áhrif á íbúana, þar á meðal hinn mikla fjölda innflytjenda sem neyðast til að flytja sífellt lengra frá stórborginni til að hafa efni á húsnæði.
Leiguverðið hækkaði um allt að 20% í sumum af eftirsóttustu hverfum borgarinnar á síðasta ári og reiknað er með enn frekari hækkun á þessu ári.
Innfæddir íbúar eru nú í vaxandi mæli farnir að gagnrýna vaxandi ferðamannastraum til landsins og áhrif hans á borgina. Þetta þykja mikil tíðindi í Dúbaí því þar ríkir ekki tjáningar- né fundafrelsi eins og við þekkjum á Vesturlöndum.
Það að sífellt fleiri, þar á meðal þekktir og áhrifamiklir aðilar, tjái sig um stöðu mála, segir mikið um hversu alvarlegur vandinn er.