Börnin voru heimilislaus og gistu í sendibíl á bílastæði við spilavíti í borginni ásamt móður sinni, ömmu og þremur öðrum börnum. Bíllinn var í gangi þegar hópurinn lagðist til hvílu en drap á sér líklega fljótlega eftir miðnætti þessa nótt.
Kalt hefur verið í veðri í Detroit og fer frostið jafnan niður fyrir tíu gráður yfir nóttina.
Í fréttum bandarískra fjölmiðla kemur fram að móðir barnanna hafi leitað eftir aðstoð vegna húsnæðisvanda í nóvember síðastliðnum en komið að tómum kofanum. Er talið að fjölskyldan hafi dvalið í bílnum síðustu þrjá mánuði og flakkað á milli bílastæðahúsa.
Duggan segir að rúm hafi verið laus í híbýli fyrir heimilislausa skammt frá spilavítinu en fjölskyldan hafi einhverra hluta vegna fengið þau svör að allt væri fullt.
Tamara Liberty Smith, fulltrúi lögreglunnar í Detroit, segir við bandaríska fjölmiðla að amman hafi verið með vinnu hjá kjúklingastaðnum Popeye‘s og móðirin hafi verið komin með vinnu í Flint sem er um hundrað kílómetrum frá Detroit.
„Þetta var fjölskylda sem var virkilega að reyna,“ segir Tamara.
Duggan hefur fyrirskipað að rannsókn fari fram á málinu svo harmleikur af þessu tagi endurtaki sig ekki.