Þetta staðfestir sendiherra Rússa í Norður-Kóreu, Alexander Matsegora, í samtali við ríkisrekna rússneska fjölmiðilinn Rossiyskaya Gazeta.
Rússar og Norður-Kóreumenn eru bandamenn á ýmsum sviðum og er skemmst að minnast þess þegar um 12 þúsund norðurkóreskir hermenn voru sendir til að aðstoða Rússa í stríðinu í Úkraínu.
Hétu leiðtogar ríkjanna tveggja, Vladimír Pútín og Kim Jong-Un, að þjóðirnar kæmu hvor annarri til aðstoðar ef ráðist yrði á þær.
Í viðtalinu við Alexander kom fram að nokkur hundruð hermenn hefðu dvalið í góðu yfirlæti á sjúkrastofnunum í Norður-Kóreu eftir að hafa slasast. Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um fjölda eða hvernig áverka hermennirnir voru með.
Segir Alexander að til marks um vináttu þjóðanna hafi Norður-Kóreumenn orðið móðgaðir þegar Rússar fóru fram á að borga fyrir dvöl rússnesku hermannanna. „Þeir báðu okkur vinsamlegast um að gera það ekki aftur,“ sagði hann.
Rússar eru sagðir útvega Norður-Kóreumönnum ýmsar nauðsynjar eins og kol, mat og lyf í skiptum fyrir til dæmis skotfæri og hermenn sem Norður-Kóreumenn hafa útvegað.
Í frétt CNN kemur fram að ýmsir efist um orð Alexanders enda hafi rússneski herinn ekki sýnt hermönnum sínum mikla væntumþykju í stríðinu til þessa. Í tilkynningu sem stofnunin The Institute for the Study of War sendi frá sér á mánudag kom til dæmis fram að herinn hefði sent slasaða hermenn aftur á vígvöllinn. Þá er þess getið í frétt CNN að sjúkrahús í Norður-Kóreu séu ekki sérstaklega vel tækjum búin.