Það er ekki ofsagt að segja að líf Joe DiMeo hafi gjörbreyst þegar hann var 18 ára gamall. Hann var að keyra heim um sjöleytið um morgun eftir að hafa lokið næturvakt á rannsóknarstofu þar sem hann prófaði matvörur. Honum var slétt sama um vinnutímann, enda að safna peningum fyrir varahlutum fyrir Dodge Challenger bíl sem hann átti. Joe var heldur ekkert að hugsa mikið um svefninn eins og margir gera á þessum aldri, og fannst bara eðlilegt að sofa fjórar til fimm klukkustundir á nóttu.
Joe var í aðeins 10 mínútna fjarlægð frá heimili sínu þegar hann lenti í árekstri.
„Ég sofnaði bara við stýrið og bíllinn lenti í vegarkanti, lenti á kantsteini og kviknaði í,“ rifjar Joe upp í viðtali við People. Hann var í dái í þrjá og hálfan mánuð og vaknaði á brunadeild, þar sem hann dvaldi í tvær vikur í viðbót. Hann fór af sjúkrahúsinu til að verja nokkrum mánuðum endurhæfingarstöð fyrir brunasjúklinga og flutti svo aftur inn á heimili foreldra sinna.
„Ég varð í rauninni bara barn aftur, 20 ára gamalt barn, sem er alls ekki gott. Mamma þvoði þvottinn minn, eldaði, þreif, bara gerði allt fyrir mig meðan ég lá í sófanum með hundinn minn. Þetta líf var ekki ég.“
Joe brenndist á 80 prósent líkama síns og í raun var lítið af húð eftir til að græða. En þrátt fyrir að hún væri áhættusöm var ígræðsla eina tækifæri Joe til að endurheimta sjálfstæði sitt. Árið 2019 hitti hann lækninn Eduardo D. Rodriguez, sem taldi Joe góðan kandídat fyrir aðgerðina. Fyrir aðgerðina gekkst hann undir um sex mánaða próf undir forystu Dr. Rodriguez og teymi hans. Síðan skall á kórónuveiruheimsfaraldurinn og því var aðgerðinni frestað til ágúst 2020.
Samkvæmt fréttatilkynningu frá sjúkrahúsinu tóku meira en 140 heilbrigðisstarfsmenn þátt í aðgerðinni sem tók 23 klukkustundir. Joe fékk andlit og hendur 47 ára gjafa.
Bataferlið eftir aðgerðina hófst með næstum 14 vikum á spítalanum undir umsjón lækna. Joe segir í viðtalinu að þessar vikur hafi einkennst af taugaverkjum, iðjuþjálfun og handaæfingum meðan hann upplifði mikinn sársauka. Hann þurfti líka að endurlæra helstu hreyfifærni eins og að ganga og hoppa.
Aðgerðin var söguleg og vakti nokkra athygli á Joe, sem hóf í kjölfarið að deila lífi sínu á netinu. Reglulega birti hann myndbönd um tvöfalda ígræðsluna, greindi frá framförum sínum og svaraði spurningum frá fylgjendum sínum. Á TikTok og Instagram er hann með um 240 þúsund fylgjendur. Og það var einmitt þar sem ástin kviknaði þegar hann kynntist Jessicu.
Kynnin hófust fyrir næstum fjórum árum, þegar hann sendi henni Instagram skilaboð um Boston Terrier hundinn hennar. Jessica hafði nýlega séð heimildarmynd um aðgerð Joe og á þeim tíma vann hún með ígræðslusjúklingum í starfi sínu sem hjúkrunarfræðingur.
Það var sjálfstraust Joe Joe sem heillaði Jessicu fyrst þegar þau byrjuðu saman. Það lýsir sér í því hvernig hann gengur, hvernig hann klæðir sig og aðlaðandi samtalshæfileika hans. Sjálfstraust Joe skín í gegnum allt sem hann gerir, segir hin 34 ára Jessica. Sjálfstraustið er einn af uppáhalds hlutunum hennar við Joe, 26 ára, og hún ímyndar sér að þannig hafi hann alltaf verið.
„Ég meina, ég þekkti hann ekki áður, en ég gat bara gengið út frá því að hann væri mjög öruggur unglingur og ungur maður. Nú er hann mjög öruggur maður.“
Sambandið hófst í apríl 2021 og parið gifti sig í desember í fyrra. Fyrstu sex mánuðina var samband þeirra í fjarbúð, Jessica bjó í Cleveland og Joe í New Jersey, en þau héldu góðu sambandi. Þau töluðu oft saman í síma og Jessica keyrði yfir nokkur fylki í heimsókn. Auk þess flaug Joe einu sinni til að hjálpa Jessicu að flytja sama dag og hann var útskrifaður af spítala.
Í dag eru þau gift og búa á heimili sínu í New Jersey. Daglegt líf þeirra er líkt daglegu lífi margra ungra hjóna. Jessica fer til New York borgar á vakt frá 12-20 og þegar hún kemur heim er Joe búinn að elda kvöldmatinn.
„Athafnir hans í daglegu lífi gætu verið svolítið öðruvísi en mínar og þínar, en við erum frekar eðlileg,“ segir Jessica. Það er þó margt í lífi Joe breytt frá því sem áður var, hann getur ekki unnið lengur við viðgerðir á bílum. Hann getur í raun ekki unnið vinnu sem reynir mikið á hann líkamlega og á hendur hans, og ekki utandyra, þar sem hann er sérstaklega viðkvæmur fyrir aftakaveðri.
Á meðan Jessica er í vinnunni er Joe hins vegar að sinna nýjum verkefnum og ástríðu. Hann er að skrifa bók og rekur einnig sitt eigið fatamerki sem heitir 80 Percent Gone. Hann hafði alltaf gaman af tísku og í lok menntaskóla hugsaði hann um að læra fatahönnun. En það var dýr framtíð, svo hann gafst upp á draumnum og fór að vinna fyrir sér í staðinn. Lífið eftir ígræðsluna hefur gefið honum tíma, rými og vettvang til að gefa tískunni annað tækifæri. Hann selur nú hönnun sína prentaða á föt og fylgihluti á netinu.
Jessica hefur hvatt eiginmanninn til að halda áfram að segja sögu sína opinberlega, vegna þess að saga hans er einstök og einnig vegna þess hversu einstakur hann sjálfur er sem manneskja.
„Það eru aðrir andlitsþegar þarna úti, en enginn þeirra er jafn virkur og Joe. Joe er einn af þeim yngri og hann er einn af þeim heppnu sem er ekki með heilaskaða vegna þess að margir andlitsþegar eru einnig með einhverja andlega fötlun. Svo sagði ég líka við hann: „Þú ert með hinn fullkomna persónuleika, hina fullkomnu sögu.“
Draumur Joe er að vera fyrirlesari og hvetja aðra áfram, þannig að hann er áhugasamur um að koma reynslu sinni á framfæri í þeim tilgangi að hjálpa öðrum. Hjónunum berst mikill fjöldi skilaboða sem staðfesta að Joe sé á réttri leið og þó aðhjónin geti ekki svarað öllu, hvetur samtakamáttur þeirra hann til að halda áfram.
Stundum fær Jessica skilaboð frá foreldrum sem vona að fötluð börn þeirra finni rómantískan maka einn daginn. Þau fá einnig hatursfull skilaboð en Jessica segir þau hafa lært að eyða þeim og blokka sendandann í stað þess að reyna að svara.
„Sama hvað, ef þú bregst við, þá ert þú sá vondi. Það ert þú sem svarar, svo þú ert að fara í vörn. Þetta er eins og snúningshurð. Þetta stoppar ekki,“ segir Jessica. Hún viðurkennir hins vegar að að stundum hjálpi slík skilaboð til.
„Þegar ég fæ hatursskilaboð þá veit ég að myndbandið eða færslan sem Joe eða við vorum að birta mun fá athygli. Eitt myndband á TikTok fékk 120 milljón áhorfum. Það er ýmislegt sem ég geri til að koma í veg fyrir hatrið, en stundum nær það í gegn. Þegar það er frá eldra fólki, þá hugsa ég: „Ertu ekki of gamall til að vera svona vondur?“
Joe lætur hatursfull skilaboð ekki fara í taugarnar og hefur gaman af þeim frekar en hitt.
„Mér finnst þetta fyndið. Ég er 185 sm, frekar herðabreiður, þannig að þetta fólk er aldrei að fara að tala svona við mig í eigin persónu. Við höfum ekki lent í slæmri reynslu í eigin persónu.“