Stjórnarskrárkreppa vofir yfir Bandaríkjunum. Þessu hafa sérfræðingar varað við undanfarnar vikur og þá sérstaklega undanfarinn sólarhring eftir að varaforseti Bandaríkjanna, JD Vance, sagði galið að dómarar gætu sagt forseta fyrir verkum.
Vance skrifaði á X á sunnudaginn: „Ef dómari reyndi að segja hersforingja hvernig hann ætti að framkvæma hernaðaraðgerð þá væri það ólöglegt. Ef dómari reyndi að skipa ríkissaksóknara um hvernig hún ætti að fara með ákæruvaldið þá væri það líka ólöglegt. Dómarar mega ekki skipta sér af lögmætu valdi framkvæmdarvaldsins. “
Þarna var Vance líklegast að tjá sig um ákvörðun alríkisdómara sem setti tímabundið bann á að aðilar á vegum ríkisstjórnarinnar, pólítískt skipaðir eða í sérstökum störfum fyrir hið opinbera, fengju aðgang að viðkvæmum gögnum og greiðslukerfum fjármálaráðuneytisins. Þetta eru aðilar á borð við Elon Musk og félaga hans í DOGE-deildinni sem fara fyrir niðurskurðaraðgerðum.
Vance hafði fyrr þennan sama dag deilt færslu frá lagaprófessor við Harvard sem benti á að afskipti dómara af framkvæmdavaldi færi gegn þrískiptingu ríkisvaldsins sem er kveðið á um í stjórnarskrá. Vance, sem þó er lögfræðimenntaður, virðist líta á öll afskipti dómara af aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem ólögmæt afskipti og því sé hægt að virða slíka úrskurði dómara að vettugi.
Margir telja þetta hættulega afstöðu sem gangi í raun sjálf í berhögg við stjórnarskrána. Það sé óumdeilt að stjórnarskráin leggi það í hendur dómstóla að túlka lög og meta hvort ákvarðanir framkvæmdarvaldsins séu í samræmi við þau eða ekki. Dómarinn í þessu máli var ekki að segja Trump hvað hann ætti ekki að gera heldur hvað hann mætti ekki gera. Það felist ekki afskipti í slíku.
Eins hefur verið bent á ákvörðun alríkisdómara um að Trump hafi ekki heimild til að frysta lán- og styrkveitingar sem þingið hefur þegar samþykkt. Það sé undir þinginu komið að afturkalla slíkt. Sami dómari hefur kveðið upp annan úrskurð þar sem slegið er á hendur Trump fyrir að hafa ekki virt fyrri ákvörðunina.
Enn eitt dæmið er ákvörðun Trump um að leggja niður þróunar- og mannúðaraðstoðarstofnunina USAID. USAID var komið á með lögum og því sé aðeins hægt að leggja hana niður með lögum.
Loks hefur Trump skrifað forsetatilskipun um að fólki sé ekki lengur tryggður ríkisborgararéttur við það eitt að fæðast í Bandaríkjunum, en slíkur réttur er tryggður í stjórnarskrá. Þetta hafa dómarar eins gert athugasemdir við en engu að síður ætlar Trump að halda sínu striki og sneiðir framhjá löggjafanum, dómsvaldinu og stjórnarskrá.
Sérfræðingar hafa bent á að ef forseti hefði ótakmarkaðar heimildir til að ákveða hvert fjármagn fer og hvort stofnunum sé lokað eða ekki, þá sé hætt við að hann misbeiti því valdi til að verðlauna aðila sem eru honum hliðhollir og refsa þeim sem eru það ekki. Það sé talað um þrískiptingu valds fyrir ástæðu og ástæðan er einmitt að koma í veg fyrir að svona eigi sér stað. Ef Trump virðir ekki niðurstöðu dómstóla um túlkun og gildissvið laga, eða hvað brjóti gegn stjórnarskrá eða ekki, þá sé stjórnarskráin ekkert meira en gagnslaust plagg.
Fyrrum þingmaðurinn Mitt Romney hafði í raun varað við einmitt þessu þegar hann tilkynnti árið 2023 að hann ætlaði ekki að sækjast eftir endurkjöri. Hann segir í endurminningum sínum sem komu út á þeim tíma að stór hluti flokks hans, repúblikana, trúi ekki á stjórnarskrána í raun og veru. Þetta hafi komið skýrt fram í áhlaupi stuðningsmanna Trump á þinghúsið í janúar 2021. Trump og stuðningsmenn hans hafi þar verið tilbúnir að kasta öllum lýðræðisgildum út í gluggann og sækja herkænsku frá alræðishugmyndum. Þetta fannst þeim í lagi svo lengi sem það tryggði þeim áframhaldandi völd.
Romney rak í bók sinni að hann hafi eftir áhlaupið orðið heillaður af korti sem hékk á vegg skrifstofu hans í þinghúsinu og rakti sögu stórvelda mannkynsins. Árþúsundum saman hafi harðstjórn einráða verið við lýði þar sem menn söfnuðu í kringum sig áhangendum og fóru í kjölfarið að kúga og drottna yfir öðrum. Bandaríska lýðveldið væri því tilraun til að berjast á móti eðlishvötum mannsins. Þetta geri að verkum að lýðveldið sé brothætt.