Andrew og Dawn Searle, sem voru á sjötugs- og sextugsaldri, fundust látin á heimili sínu í bænum Les Pesquiés og bentu verksummerki til þess að um hafi verið að ræða misheppnaða innbrots- eða ránstilraun. Dawn var móðir Callum Kerr, sem er þekktur tónlistarmaður og leikari í Bretlandi.
Andrew og Dawn höfðu verið búsett í Frakklandi í um áratug en Andrew starfaði áður í Edinborg í Skotlandi við rannsóknir á efnahagsglæpum. Meðal þess sem lögregla hefur skoðað er hvort Andrew hafi átt sér einhverja óvildarmenn í ljósi þess við hvað hann starfaði.
Mail Online hefur eftir nágranna hjónanna að Andrew hafi sést í símanum áður en hann fannst látinn. Hann hafi verið að spjalla við einhvern og það hafi virst vera „tilfinningaþrungið“ símtal.
„Hann virtist áhyggjufullur,“ segir nágranninn Antoine Da Silva. Annar nágranni tekur undir þetta en hann varð sjálfur vitni að einhvers konar rifrildi milli Andrews og einhvers sem hann talaði við í símann.
„Ég sá þau daginn áður en þau fundust látin. Þau voru úti að labba með hundana og Andrew var í símanum. Hann var mjög æstur og virtist vera að rífast við einhvern á ensku. Hann veifaði mér og hélt svo áfram að tala í símann,“ segir nágranninn sem vill ekki láta nafns síns getið
Í frétt Mail Online kemur fram að lögregla hafi lagt hald á símtæki þeirra hjóna og er vonast til þess að símarnir geymi mikilvægar vísbendingar um hvað gerðist þennan örlagaríka dag, einkum sími Andrews.