fbpx
Mánudagur 10.febrúar 2025
Pressan

Lagaprófessor rekur hvernig Elon Musk hefur mölbrotið lög undanfarið – „Þetta er mjög furðulegt og líklega ólöglegt“

Ritstjórn Pressunnar
Sunnudaginn 9. febrúar 2025 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

David Super, prófessor í stjórnskipunarrétti við lagaháskólann í Georgtown, lýsir því í samtali við Vox hvernig auðkýfingurinn Elon Musk, og raunar Donald Trump líka, hafi brotið lög með tilraunum sínum til að hagræða í ríkisrekstri Bandaríkjanna, einkum með því að freista þess að ráðast í aðgerðir án þess að fá fyrst viðeigandi heimildir frá Bandaríkjaþingi.

Rétt er að geta þess að viðtalið birtist á fimmtudaginn svo þar er ekki farið yfir þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í síðan þá eða þau álitamál sem hafa síðan farið fyrir dómstóla.

Launað leyfi

Blaðamaðurinn Andrew Prokop segir að það sem hafi slegið hann mest við aðgerðir Musk sé hvernig hann beitir launuðu leyfi gegn alríkisstarfsmönnum. Hagræðingadeild Musk kallast DOGE og Super segir að starfsmenn sem hafi sett sig gegn DOGE hafi fengið að finna fyrir vendinum. „Atvinnuríkisstarfsmenn sem hafa sett sig gegn kröfum DOGE hafa umsvifalaust verið sendir í launað leyfi. Eins opinberir starfsmenn sem voru að vinna í DEI-málum [málefni sem varða fjölbreytni, jafnrétti og inngildingu]. Næstum allir starfsmenn USAID, þróunar- og mannúðaraðstoðarstofnunar Bandaríkjanna, hafa fengið að mæta sömu örlögum. Hann spurði Super hvort þetta sé löglegt.

Super svaraði: „Þetta er mjög furðulegt og líklega ólöglegt“. Prófessorinn rekur að samkvæmt alríkislögum megi launað leyfi, sem starfsmaður er sendur í að kröfu vinnuveitanda, aðeins vera 10 dagar á ári. Þetta sé úrræði sem er gjarnan beitt þegar upp koma alvarleg mál á borð við þau þegar starfsmaður er grunaður um brot í starfi. Þá er hægt að senda viðkomandi í leyfi á meðan málið er rannsakað. Eins er þessu beitt þegar starfsmaður þarf nauðsynlega að vera frá vinnu, svo sem eftir erfðan missi, og hefur ekki um önnur ráð að velja.

„Þarna er verið að nota þetta sem herkænsku í mun meiri mæli en til er ætlast og það er engin lagaleg heimild fyrir slíku.“

Biðlaunaboðið

Prokop spurði næst um tölvupósta sem alríkisstarfsmenn hafa fengið undanfarið. Þar eru þeim boðin biðlaun til 8 mánaða segi þeir starfi sínu lausu. Prokop vill vita hvort þetta sé eðlileg framkvæmd.

Super segir að þarna sé Musk, eða DOGE, að lofa upp í ermina á sér. Þetta gangi í berhögg við alríkislög og það geti haft alvarlegar afleiðingar. Það standi skýrum stöfum í stjórnarskrá Bandaríkjanna að fjárveitingavald alríkisins sé hjá þinginu. Með því að lofa greiðslum umfram það sem þingið hefur samþykkt sé því verið að brjóta lög. Eins sé verið að brjóta lög sem kveða á um að starfsmenn alríkisins megi ekki eyrnamerkja fé sem er ekki búið að úthluta til deildar eða stofnanar þeirra. Sem stendur sé alríkið aðeins fjármagnað fram til 14. mars svo með því að lofa biðlaunum umfram þann tíma sé verið að brjóta lög og þar með talið grundvallarlögin – stjórnarskrána.

Prokop lýsir þeirra skoðun sinni að Musk hljóti að halda að hann hafi þarna fundið leið framhjá stífum reglum um starfsmannamál ríkisins. Það sé áhætta fólgin í því að reka fólk og betra að fá það til að segja sjálft upp störfum.

Super tók fram að það sé eitt að lofa og annað að efna. Vissulega sé verið að lofa þessum biðlaunum, en á sama tíma hafi DOGE gefið til kynna að samkomulag um slíkt sé mögulega ekki skuldbindandi. Því sé líklegt að fólk segi starfi sínu lausu, en fái svo ekki þessi biðlaun með vísan til þess að það var aldrei löglegt að lofa þeim.

„Á þeim tímapunkti gæti fólkið, sem var nógu vitlaust til að ganga að þessu boði, reynt að stefna ríkinu til að fá samninginn efndan. Ég reikna með að dómstólar muni segja þeim að það sé ómögulegt að knýja fram efndir á samkomulagi sem enginn hafði nokkra heimild til að gera.“

Lán- og styrkveitingar

Prokoð víkur máli sínu næst að útgjöldum alríkisins. Musk hafi reynt að frysta lán- og styrkveitingar alríkisins en varð gerður aftureka með það af dómstólum. Eins sé það orðið á götunni að teymi Musk sé að reyna að koma í veg fyrir að tilteknir styrkir verði greiddir út.

Super segir að þarna reki Musk sig á það að hæstiréttur Bandaríkjanna var á einu máli um það að eftir að þingið hefur ákveðið hvernig peningum skuli varið, þá beri forsetanum að fara eftir því. Þarna sé því um stóra hindrun á ræða sem erfitt sé að sjá hvernig Musk komist framhjá. Forseti geti vissulega beint tillögum til þingsins og lagt til að fjárveitingar verði stöðvaðar, slík tillaga fengi meira að segja flýtimeðferð. En hann geti ekki ákveðið svona upp á sitt eindæmi.

„Trump-stjórnin hefur komið fram með mikið af mjög langsóttum lagakenningum um hvernig þeim sé þetta allt heimilt. En þessar kenningar koma frá sama stað og sú hugmynd að varaforsetinn hafi heimild til að hnekkja ákvörðun meirihluta kjósenda í forsetakosningum og lýsa hvern sem honum sýnist sem sigurvegara. Það var galin kenning þegar þeir reyndu að sannfæra Mike Pence um þetta og hefur verið galin kenning allar götur síðan.“

Engu að síður sé Trump enn að byggja á lagatúlkun sem er með öllu út í hött.

Hvað með Musk sjálfan?

Prokop spyr þá um USAID sem Trump sé að leysa upp án þess að bera það undir þingið. Super segir að þarna sé Trump bókstaflega að fara á svig við ákvörðun löggjafans. Það segi í bandarískum lögum að USAID sé til. Það segi ekki að slík stofnun geti verið til eða megi vera til heldur að hún sé til. Þar með geti Trump ekki lokað henni með einhliða ákvörðun. Það þurfi að koma til lagabreyting.

Prokop veltir þá líka fyrir sér Elon Musk sjálfum og stöðu hans hjá hinu opinbera. Trump-stjórnin kalli hann sérstakan ríkisstarfsmann en gefi þó ekkert upp hvernig hann fékk þá stöðu. Það sé eins undir honum sjálfum komið að upplýsa um mögulega hagsmunaárekstra hvað fyrirtæki hans varðar.

Super segir margt rangt við þetta. Það séu stífar reglur hjá hinu opinbera sem er ætlað að koma í veg fyrir að fyrirtæki og fólk sem á í viðskiptum við hið opinbera geti haft bein áhrif á eigin hagsmuni. Það liggi þó ekki fyrir hvaða stöðu Musk gegnir og hvað í henni felst. Líklega ætli ríkið sér ekki að skilgreina það fyrr en þörf krefur. En það sé þó ljóst að hann sé kominn með aðgang að upplýsingum sem geti gagnast honum mikið gegn samkeppnisaðilum hans. Það sé eins óábyrgt að ætla honum sjálfum að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra.

Óskhyggja eða eitthvað verra

Super tekur fram að það sé eins óþægilegt að Musk sé kominn með aðgang að greiðslukerfum fjármálaráðuneytisins. Samkvæmt lögum eru gerðar strangar kröfur um hver megi ráðstafa opinberu fé. Það sé frekar ljóst að þeir menn sem Musk hefur fengið með sér standast ekki þessar kröfur, að ógleymdum svo persónuverndarlögunum. Fréttir hafa birst þar sem því er haldið fram að Musk hafi afritað upplýsingar og fært yfir á sína eigin netþjóna. Super segir að ef satt reynist, og ef einhverjum tekst að brjótast inn í þessa netþjóna, þá gætu margir lent í því að bankareikningar þeirra verði tæmdir af hinu opinbera.

Musk haldi því fram að hann þurfi þessar upplýsingar til að bera kennsl á bótasvindlara og aðra sem eru að misnota skattpeninga. Super segir ekkert gefa til kynna að gögnin í þessum kerfum geti borið kennsl á hvað sé lögmætt og hvað ekki. Musk hafi auk þess engar heimildir til úrskurða um slíkt.

„Svo það virðist sem þetta sé annaðhvort óskhyggja hjá þeim eða að eitthvað verra er að eiga sér stað varðandi hvernig þau munu réttlæta þetta.“

Prokop spyr loks hvort það séu fleiri lög sem Musk hefur brotið sem ekki eru rakin hér að framan. Super bendir á að Musk haldi því fram að hann hafi heimild til að velja og hafna hvaða lögum hann fylgi og hver hann virði að vettugi. Ef það væri rétt myndi það grafa undir öllu regluverki ríkisins og hafa neikvæð áhrif á þær greinar atvinnulífsins sem eru háðar opinberum leyfum og reglum. Það ættu allir að hafa áhyggjur af þessari stöðu.

Super hefur áður sagt við Washington Post að líklega séu Trump og Musk að veðja á það að ef þeir hunsa nógu mikið af lögum á sama tíma þá muni kerfið ekki ráða við það. Það verði því ekki hægt að bregðast við þessu. Super bætir því nú við að dómstólar séu þegar farnir að gera athugasemdir – en Trump hafi þó sjálfur sagt að þeir dómarar hæstaréttar sem hann skipaði skuldi honum og eigi að sýna honum tryggð. Því sé hætt við að Trump og Musk komist upp með lögbrotin.

Miðillinn Snopes sem berst gegn falsfréttum hefur þó tekið til skoðunar aðgerðir gegn USAID og er á sama máli og Super, það sé fordæmalaust að forseti eða aðilar á hans vegum leggi niður ríkisstofnun, sem byggir tilvist sína á lögum, án þess að fara fyrst með það í gegnum þingið. Trump hafi meira að segja sjálfur farið þá leið í fyrri forsetatíð sinni. Snopes rekur eins að margar fullyrðingar um fjárveitingar USAID til ýmissa aðila og málefna eigi ekki við rök að styðjast. Svo sem að USAID hafi borgað leikaranum Ben Stiller fyrir að heimsækja Úkraínu. Eins að USAID hafi fjármagnað miðilinn Politico, en hið rétta er að um áskriftargjöld var að ræða, einkum fyrir greiningartól sem miðillinn býður upp á.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Svikin hrottalega af manni sem hún taldi vera vin sinn – Breytti góðum minningum í martraðir

Svikin hrottalega af manni sem hún taldi vera vin sinn – Breytti góðum minningum í martraðir
Pressan
Í gær

Ný rannsókn – Fallegt fólk þénar meira

Ný rannsókn – Fallegt fólk þénar meira
Pressan
Fyrir 2 dögum

Kínverjar ætla að smíða risastóra sólarorkustöð í geimnum – Gæti aflað meiri orku á einu ári en „öll olían á jörðinni“

Kínverjar ætla að smíða risastóra sólarorkustöð í geimnum – Gæti aflað meiri orku á einu ári en „öll olían á jörðinni“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Flúði úr fangelsi fyrir 50 árum – Núna veit lögreglan loksins hvar hún faldi sig

Flúði úr fangelsi fyrir 50 árum – Núna veit lögreglan loksins hvar hún faldi sig