Andrew og Dawn Searle, sem bæði voru á sjötugsaldri, fundust látin og bentu verksummerki til þess að um hafi verið að ræða misheppnaða innbrots- eða ránstilraun.
Það er einkum bakgrunnur Andrews sem gefur kenningu lögreglu byr undir báða vængi en hann starfaði í tuttugu ár hjá efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar þar sem hann upprætti meðal annars skipulagða glæpahópa og peningaþvætti.
Andrew og Dawn höfðu verið búsett í Frakklandi frá árinu 2015 en Andrew var áður með aðsetur í Edinborg í Skotlandi þar sem hann starfaði lengst af á sínum ferli.
„Þau voru í góðu formi, vinsæl í bænum og það er kenning uppi um að glæpamenn frá Bretlandseyjum hafi verið á eftir þeim,“ segir einn aðili sem kemur að rannsókninni í samtali við Mail Online.
Mail Online ræddi við nágranna hjónanna í gær og eru margir í áfalli yfir morðunum, enda Les Pesquiés friðsæll staður og lítið um alvarlega glæpi á þeim slóðum.
„Þau voru yndisleg og það var mjög sjokkerandi að heyra af þessu. Þau voru mjög vinaleg og opin og skemmtileg. Það sem hefur gerst hér hefur valdið talsverðri hræðslu,“ segir nágranninn.