Fanelli gerði sig nefnilega sekan – samkvæmt saksóknurum – um að framkvæma aðgerð á kettinum sínum á sjúkrahúsinu. Aðgerðin var lífsnauðsynleg þar sem kötturinn, sem heitir Athena, hafði skömmu áður dottið út um glugga á sjöttu hæð og var nær dauða en lífi þegar Fanelli fór með hann á sjúkrahúsið.
Málið komst á borð lögreglu og segja saksóknarar að hann hafi með þessu farið illa með almannafé og lagt stein í götu þeirra sjúklinga sem biðu eftir þjónustu.
Þessu er Fanelli hjartanlega ósammála og bendir hann á að atvikið hafi gerst klukkan 11 að kvöldi og deildin sem aðgerðin var framkvæmd á hafi verið lokuð.
„Hún var á milli heims og helju en ég vissi að ég gæti bjargað henni með því að bregðast skjótt við,“ segir hann við ítalska fjölmiðla. Á sjúkrahúsinu losaði hann meðal annars vökva sem tekinn var að safnast fyrir í lungunum á kettinum og setti köttinn í tölvusneiðmyndatæki til að kanna með meiðsl.
Fanelli segir að sem læknir vinni hann að því að bjarga lífum og á þessum tímapunkti, þegar slysið varð, hafi ekkert annað komið til greina af hans hálfu en að bjarga kettinum með öllum tiltækum ráðum. „Ég hefði aldrei getað fyrirgefið mér það ef hún hefði dáið,“ segir hann.