The Independent segir að maðurinn hafi skotið stúlkuna til bana á götu úti í borginni Quetta á þriðjudag í síðustu viku. Maðurinn, Anwar ul-Haq, sagði í fyrstu að óþekktir byssumenn hefðu skotið 15 ára dóttur hans en játaði síðan að hafa verið sjálfur að verki.
Babar Baloch, talsmaður lögreglunnar, sagði Reuters að rannsóknin hafi leitt í ljós að fjölskyldan hafi verið ósátt við hvernig stúlkan klæddist, lífsstíl hennar og hverja hún umgekkst. Ekki sé hægt að útiloka að morðið hafi verið framið til að „vernda orðspor“ fjölskyldunnar.
Fjölskyldan flutti nýlega til Balochistan-héraðsins í Pakistan. Múslimar eru í miklum meirihluta í Pakistan og er þjóðin íhaldssöm þegar kemur að samfélagslegum hefðum og venjum. Fjölskyldan hafði búið í Bandaríkjunum síðustu 25 árin.
Anwar ul-Haq er með bandarískan ríkisborgararétt. Lögreglan segir að hann hafi sagt að dóttir hans hafi byrjað að birta „ámælisvert“ efni á TikTok þegar fjölskyldan bjó í Bandaríkjunum. Hún hafi haldið áfram að birta myndbönd á samfélagsmiðlinum eftir að fjölskyldan flutti til Pakistan.
Mágur hans er einnig í haldi lögreglunnar, grunaður um aðild að morðinu.