Rubio tilkynnti þetta í gærmorgun og hefur forseti El Salvador, Nayib Bukele, staðfest að yfirvöld hafi boðið Bandaríkjunum afnot af stærsta fangelsi landsins, CECOT-fangelsinu svokallaða, þar sem pláss er fyrir 40 þúsund fanga.
„Verðið verður tiltölulega lágt fyrir Bandaríkjamenn en mun skipta miklu fyrir okkur og gera fangelsiskerfið okkar sjálfbært,“ segir hann.
Eftir að Bukele tók við embætti forseta landsins hefur hann skorið upp herör gegn glæpagengjum í landinu. Frá árinu 2022 hafa 81 þúsund manns verið sendir í fangelsi í El Salvador og samhliða því hefur glæpatíðni snarlækkað.
Ýmsir hafa þó vakið athygli á stöðu mannréttindamála í fangelsum landsins og bent á að aðstæður þar séu mjög erfiðar fyrir fanga. Í CECOT-fangelsinu sé til dæmis mjög þröngt á þingi, hreinlæti sé ábótavant sem og aðgangur að hreinu drykkjarvatni. Þá eru ljós kveikt allan sólarhringinn og dvelja fangarnir saman í stórri álmu með litlu sem engu friðhelgi.
Óvíst er hvernig staðið verður að flutningi bandarískra ríkisborgara til El Salvador og eru lög nokkuð skýr sem banna flutning bandarískra ríkisborgara til annarra landa. Á þetta bendir Leti Volpp, lagaprófessor við UC Berkeley, í samtali við CNN og segir hann engu máli skipta hvort viðkomandi sé í fangelsi eða ekki.
Mail Online varpaði ljósi á lífið í CECOT-fangelsinu fyrir skemmstu en í þeirri umfjöllun kom fram að fangelsið væri stundum kallað Alcatraz Mið-Ameríku og „svarthol“ þegar kemur að mannréttindum fanga.
Bent var á það að ljós væru kveikt allan sólarhringinn í fangelsinu, fangar sofi á einskonar stálplötum og þeir fái engar dýnur eða kodda til að gera dvölina þægilegri. Og þurfi fangar að fara á klósettið þurfi að gera það fyrir opnum tjöldum allra. Þá var bent á að fangar fái aldrei að anda að sér fersku lofti og hitastigið í álmunum geti farið í 35 gráður þar sem loftkæling er af afar skornum skammti.
Þó að margir hafi gagnrýnt fyrirætlanir yfirvalda í El Salvador og Bandaríkjunum eru margir sem fagna þeim. „Frábær hugmynd,“ sagði til dæmis Elon Musk á samfélagsmiðli sínum, X, þegar hann deildi færslu Bukele forseta um samkomulagið við Bandaríkin.