Það var 69 ára frönsk kona sem skaut málinu til dómsins eftir að eiginmaður hennar fékk skilnað frá henni á þeim grundvelli að það væri eingöngu henni að kenna að þau væru hætt að stunda kynlíf.
Dómararnir voru allir sammála um að brotið hefði verið gegn rétti konunnar til einka- og fjölskyldulífs með því að veita manninum skilnað á þessum grundvelli. Henni væri tryggður réttur til einka- og fjölskyldulífs samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu.
Konan var ekki á móti skilnaðinum og hafði í raun sjálf einnig sótt um skilnað. En kvörtun hennar til Mannréttindadómstólsins snerist um á hvaða grundvelli skilnaðurinn var veittur.
Mannréttindadómstóllinn sagði að það þurfi að taka „samþykki“ með í reikninginn þegar kemur að kynlífi og hjónabandsskyldum. Segir hann að tilvist hjónabandsskyldu af þessu tagi stangist á við kynfrelsi og réttarins til að ráða yfir eiginn líkama. Eiginmaðurinn hefði getað sótt um skilnað á þeim grunni að hjónabandið væri farið út um þúfur og engin leið væri að lagfæra það, en ekki á öðrum grunni eins og hann gerði.
Fólkið gekk í hjónaband 1984 og eignaðist 4 börn, þar á meðal fatlaða dóttur sem krafðist stöðugrar umönnunar og tók móðir hennar það hlutverk að sér.
Samband hjónanna byrjaði að versna um leið og fyrsta barn þeirra var fætt. Konan byrjaði að glíma við heilsufarsvandamál 1992 og tíu árum síðar byrjaði eiginmaðurinn að beita hana andlegu og líkamlegu ofbeldi. Hún hætti að stunda kynlíf með honum 2004 og sótti um skilnað 2012.