Fyrir 80 árum, þann 27. janúar 1945, komu sovéskar herdeildir að fangabúðunum í Auschwitz og frelsuðu þaðan þá fangana sem höfðu lifað helförina af. Um 50 eftirlifendur sneru til baka til búðanna í dag til að minnast þeirra sem létu þar lífið, en það voru rúmlega milljón einstaklingar sem flestir voru gyðingar. Allt í allt er talið að um sex milljón gyðingar hafi látið lífið í helförinni.
Manfred Goldberg lifði af fangabúðir nasista. Hann var aðeins 13 ára gamall þegar hann kom í búðirnar og segir að annar fangi, sem hann kallar verndarengilinn sinn, hafi bjargað lífi hans. Þeir stóðu saman í röð inn í búðirnar og maðurinn hallaði sér að hinum unga Manfred og ráðlagði honum að ljúga að fangaverðinum.
„Ef hann spyr þig um aldur, segðu að þú sért 17 ára.“
Manfred hlýddi og var þá sendur í þrælavinnu. Síðar áttaði hann sig á því hvernig lygin hafði bjargað lífi hans. Yngri fangar voru teknir af lífi því verðirnir töldu að börn yngri en 17 ára væru ekki nægilega kraftmikið vinnuafl.
Manfred er 94 ára gamall. Hann er einn fárra eftirlifenda helfararinnar, en flestir eru nú látnir sökum aldurs. Hann segir mikilvægt að nýta tímann, meðan hann hefur enn heilsuna, til að halda áfram að minna heiminn á hörmungarnar í helförinni. Sérstaklega á tímum þar sem fólk er farið að efast um söguna og gyðingahatur er að aukast. Fyrstu 50 árin eftir að hann fékk frelsið neitaði hann að tjá sig um reynslu sína. Hann gifti sig, eignaðist fjögur börn og vildi eiga eðlilegt líf. Það var ekki fyrr en fyrir 20 árum síðan sem eiginkona hans hvatti hann til að opna sig.
„Hver mun segja sögu þína þegar þú ert farinn?“
Þegar Manfred var sendur í fangabúðirnar var sjálfsákvörðunarrétturinn tekinn af honum. Hann var ekki lengur manneskja heldur númer – 56478 sem var húðflúrað á handlegg hans. Hann lifði helförina af, en bróðir hans var ekki jafn heppinn. Eftir að bróðir hans hvarf fékk hann ekki einu sinni tíma til að syrgja.
„Morguninn eftir þurftum við mamma að stilla okkur upp í röðina til að fara að vinna, eins og ekkert misjafnt hefði átt sér stað. Við syrgðum í hljóði en hefðum við neitað að fara í vinnuna hefðum við verið tekin af lífi.“
Hann var aðeins 3 ára þegar nasistar tóku völdin í Þýskalandi og æska hans sýnir hvernig kerfisbundið var þrengt að gyðingum. Börnum var innrætt strax í grunnskóla að gyðingar væru ekki manneskjur í sérstökum æskulýðshópum nasista.
Síðar var honum gert að bera gyðingastjörnu á fatnaði sínum og mátti aðeins kaupa mat í sérstökum verslunum. Þessum verslunum fækkaði svo ört. Dag einn fékk móðir hans Manfred til að fela stjörnuna svo hann gæti farið í bakarí sem var ekki fyrir gyðinga að kaupa brauð. Hann var aðeins 8 ára gamall. Hann þurfti að hlaupa inn, biðja um brauðið, borga og forða sér út áður en nokkur gæti stöðvað hann.
Árið 1942 komu SS-sveitirnar á heimili hans og gáfu fjölskyldunni 10 mínútur til að pakka niður í töskur. Síðan tók við þriggja ára martröð í hinum ýmsu vinnubúðum og fangabúðum þar sem þau urðu vitni að ólýsanlegum hörmungum.
Þar sem Manfred þóttist eldri en hann var fékk hann að vinna frekar en að deyja. Loks endaði hann í búðum nærri Gdansk, en inngangurinn að búðunum var þekktur sem „hlið dauðans“ þar sem fáir fangar voru þar enn á lífi. Rúmlega 60 þúsund höfðu látið þar lífið út af sjúkdómum, banvænum sprautum og í gasklefum.
Nasistar voru að tapa stríðinu og gerðu Manfred, móður hans og öðrum föngum að ganga norður til Þýskalands. Þetta var erfið ganga þar sem fangarnir fengu varla vott né þurrt. Loks komu Bretarnir.
„Skyndilega gripu vopnuðu fangaverðirnir, sem þarna rétt áður voru að drepa fólk fyrir að ganga ekki nógu hratt, til fótanna í öfuga átt, hlupu í burtu frá okkur. Fólkið fagnaði. Verðirnir voru farnir, við vorum frjáls. Það er ekki hægt að lýsa gleðinni.“
Manfred átti gott líf eftir helförina og segir það bestu hefndina fyrir hörmungarnar sem hann gekk í gegnum. En í stofunni heima hjá honum hangir málverk af ungum dreng með bústnar kynnar. Málverkið er minning þeirra sem lifðu ekki af, málverkið er af litla bróður hans.